Enski boltinn

Segir 2022 hafa verið sitt erfiðasta ár til þessa

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Reece James meiddist enn á ný gegn Bournemouth.
Reece James meiddist enn á ný gegn Bournemouth. Visionhaus/Getty Images

Reece James, leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins Chelsea, segir árið 2022 vera eitt það erfiðasta sem hann hefur upplifað. Hann missti af HM í Katar vegna meiðsla og meiddist aftur í fyrsta leik Chelsea eftir HM pásuna.

James leikur sem hægri bakvörður eða vængbakvörður hjá Chelsea. Talið var næsta öruggt að hann yrði í stóru hlutverki hjá enska landsliðinu í Katar en leikmaðurinn er í miklu uppáhaldi hjá Gareth Southgate, landsliðsþjálfara Englands.

James meiddist hins vegar fyrir mót og missti af HM. Hann sneri til baka í byrjunarlið Chelsea þegar liðið mætti Bournemouth í gær, þriðjudag. Hann þurfti að fara af velli þegar átta mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Chelsea vann leikinn 2-0 en Graham Potter, þjálfari Chelsea, hefur áhyggjur af þessum öfluga leikmanni.

„Þetta eru sömu meiðsli og fyrir HM svo við höfum áhyggjur. Hann fann fyrir verk en við þurfum að sjá til hversu alvarlegt þetta er. Hann var verulega vonsvikinn yfir því að komast ekki til Katar, það var mikið högg. Hann er frábær leikmaður og gæti spilað í öllum bestu liðum heims,“ sagði Potter en nú hefur verið staðfest að James verði frá í mánuð hið minnsta.

James hefur tjáð sig um meiðslin á Instagram-síðu sinni: „Árið 2022 hefur verið erfiðasta ár lífs míns til þessa. Ég vil þakka ykkur öllum fyrir stuðninginn í ár. Meiðslin hafa tekið sinn toll andlega en lífið snýst um að vinna með þá hönd sem þér hefur verið gefin og það er það sem ég er að reyna gera í dag.“

„Ég vona að lok ársins hjá ykkur séu uppfull af frið, hamingju og gleði. Elska ykkur öll, sé ykkur á næsta ári.“

Chelsea er í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 24 stig að loknum 15 leikjum.


Tengdar fréttir

Fyrsti deildarsigur Chelsea í rúma tvo mánuði

Eftir að hafa ekki unnið deildarleik síðan þann 16. október síðastliðinn vann Chelsea loksins deildarleik er liðið tók á móti Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Lokatölur 2-0 og Chelsea situr nú í áttunda sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×