Erlent

Tveir látnir og margir slasaðir eftir fjörutíu bíla árekstur í Danmörku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tveir eru látnir og fleiri sagðir alvarlega slasaðir.
Tveir eru látnir og fleiri sagðir alvarlega slasaðir. Getty

Tveir eru látnir eftir árekstur á fjórða tug bíla á hraðbraut á milli bæjanna Randers og Hobro á Jótlandi í Danmörku í morgun. Fjöldahjálparmistöð hefur verið opnuð á lögreglustöðinni í Hobro vegna slyssins.

Áreksturinn varð um klukkan 9:30 að dönskum tíma, 8:30 að íslenskum tíma, og liggur fyrir að umferð um hraðbrautina verður lokuð í langan tíma.

Haft er eftir lögreglu í dönskum miðlum að fyrst hafi orðið slys á suðurleiðinni og í framhaldinu á norðurleið skömmu síðar.

„Við erum við vinnu á vettvangi. Lögregla, sjúkrabílar og björgunaraðilar hafa verið sendir á staðinn,“ segir Henrik Skals, aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni á Norður-Jótlandi, í tilkynningu til fjölmiðla.

Fólk er beðið um að halda kyrru fyrir í bílum sínum á meðan björgunaraðilar mæta á svæðið. Mikil hálka hefur verið á svæðinu og þokubakkar valdið slæmu skyggni.

Fram kemur á vef lögreglunnar á Norður-Jótlandi að hinir látnu séu karlmenn. Annar er fertugur frá Himmerland og hafa aðstandendur hans verið látnir vita. Ekki hefur náðst í aðstandendur hins karlmannsins sem lést.

Ekstrabladet birtir myndband sem sýnir aðstæður á vettvangi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×