Erlent

Eld­flauga­á­rásir gerðar á mið­borg Kænu­garðs

Gunnar Reynir Valþórsson og Atli Ísleifsson skrifa
Héraðsstjóri Kænugarðs segir að loftvarnakerfi Úkraínumanna hafi gripið inn í og svo virðist sem flestar flaugarnar hafi verið skotnar niður áður en þær hittu skotmörk sín. Myndin var tekin í Kænugarði í gær.
Héraðsstjóri Kænugarðs segir að loftvarnakerfi Úkraínumanna hafi gripið inn í og svo virðist sem flestar flaugarnar hafi verið skotnar niður áður en þær hittu skotmörk sín. Myndin var tekin í Kænugarði í gær. EPA

Rússar gerðu eldflaugaárás á miðborg Kænugarðs, höfuðborgar Úkraínu, snemma í morgun. Vitali Klitschko borgarstjóri greinir frá því á samfélagsmiðlum að sprengingar hafi orðið í Sjevtsjenkiskíj-hverfinu og að björgunaraðilar séu nú að störfum á vettvangi.

Héraðsstjóri Kænugarðs Oleksiy Kuleba segir þó að loftvarnakerfi Úkraínumanna hafi gripið inn í og svo virðist sem flestar flaugarnar hafi verið skotnar niður áður en þær hittu skotmörk sín.

Rússar hafa ítrekað skotið á orkuinnviði Úkraínumanna síðustu vikur og mánuði með eldflaugum og drónum.

Klitschko borgarstjóri bætti því við í morgun að tíu drónar hafi verið skotnir niður og að þeir hafi verið af íranskri gerð. Brot úr einum slíkum er sagt hafa lent á stjórnarráðsbyggingum í miðborginni en fregnir af manntjóni hafa ekki borist.

Úkraínumenn hafa sakað Íran um að láta Rússum í té dróna af gerðinni Shahed en Íranir neituðu upphaflega fyrir það. Síðar viðurkenndu þeir að Rússar hafi fengið slíka dróna, en þó hafi það gerst áður en þeir réðust inn í Úkraínu.


Tengdar fréttir

Send­a best­a loft­varn­ar­kerf­ið til Úkra­ín­u

Ríkisstjórn Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, vinnur að því að senda Úkraínumönnum svokallað Patriot-loftvarnarkerfi. Það er háþróað kerfi sem er sagt sérstaklega skilvirkt við það að skjóta niður stýri- og eldflaugar.

Farnir að nota fjörutíu ára sprengikúlur

Rússneski herinn hefur gengið verulega á skotfærabirgðir Rússlands fyrir stórskotalið og framleiðsla þar í landi heldur ekki við notkunina í innrás Rússa í Úkraínu. Bandaríkjamenn segja herinn byrjaðan að nota rúmlega fjörutíu ára skot sem eru líkleg til að virka ekki sem skildi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×