Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að það verði bjartir kaflar nokkuð víða á landinu, en sums staðar dálitlar skúrir eða él við norður- og vesturströndina.
„Á morgun snýst í norðan- og norðaustanátt og vindur yfirleitt fremur hægur, en gægist yfir 10 m/s nærri austursröndinni. Svolítil él um landið norðaustanvert, en bjartviðri sunnan- og vestanlands.
Frost í dag og á morgun víða á bilinu 0 til 5 stig, en sums staðar frostlaust við sjóinn.
Spár gera ráð fyrir að norðaustan- og norðanátt verði síðan ráðandi út vikuna með éljum norðan- og austanlands, en bjart að mestu sunnan heiða. Svo virðist sem þessi norðanáttarkafli verði í meinlausari kantinum, allavega hefur norðanáttin oft verið hvassari og meiri kuldi og/eða úrkoma fylgt með,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Norðaustan og norðan 3-8 m/s, en 8-13 með austurströndinni. Lítilsháttar él um landið norðaustanvert, en bjartviðri sunnan- og vestanlands. Frost 0 til 7 stig.
Á fimmtudag og föstudag: Norðan 8-15 og él norðan- og austantil, en bjart með köflum sunnan- og suðvestanlands. Frost víða 0 til 4 stig.
Á laugardag og sunnudag: Norðaustanátt og él norðaustan- og austanlands, en léttskýjað á Suður- og Vesturlandi. Hiti breytist lítið.
Á mánudag: Líkur á stífri norðanátt með éljum, en bjart sunnan heiða. Kólnar í veðri.