Erlent

Hafa borið kennsl á fleiri en 100 „lögreglustöðvar“ Kína erlendis

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fyrsta „lögreglustöðin“ var sett á laggirnar í Mílanó.
Fyrsta „lögreglustöðin“ var sett á laggirnar í Mílanó. Getty

Spænsku mannréttindasamtökin Safeguard Defenders segja stjórnvöld í Kína starfrækja fleiri en hundrað óopinberar „lögreglustöðvar“ út um allan heim. 

Flestar séu í Ítalíu, um ellefu talsins, en tilgangur þeirra er að hafa stjórn á Kínverjum erlendis og knýja stjórnarandstæðinga til að snúa aftur heim.

Samtökin sögðust í september síðastliðnum hafa talið um 54 lögreglustöðvar, sem varð til þess að rannsóknir voru opnaðar í að minnsta kosti 12 ríkjum, þeirra á meðal Kanada, Þýskalandi og Hollandi.

Í nýrri skýrslu sem birt var í morgun segir að búið sé að finna 48 stöðvar í viðbót, þar af ellefu á Ítalíu. Aðrar hafa fundist í Króatíu, Serbíu og Rúmeníu, svo dæmi séu tekin.

Stjórnvöld í Kína hafa sagt að um sé að ræða „þjónustustöðvar“, þar sem kínverskir ríkisborgarar geti til að mynda leitað ef þeir þurfa að endurnýja vegabréf eða ökuskírteini.

Safeguard Defenders, sem byggja rannsóknir sínar á gögnum sem liggja fyrir frá hinu opinbera í Kína, segja stöðvarnar ekki beinlínis reknar af stjórnvöldum í Pekíng en þar sé greinilega gengið erinda þeirra. Stöðvarnar séu notaðar til að áreita óvinveitta Kínverja og í sumum tilvikum, til að þvinga þá til að snúa aftur heim.

Samtökin nefna sem dæmi mann sem var neyddur til að snúa aftur til Kína eftir að hafa verið búsettur á Ítalíu í þrettán ár en ekkert hefur spurst til hans síðan. Meðal annarra sem hafa verið þvingaðir heim eru skotmörk aðgerðarinnar „Fox Hunt“, sem er sögð beinast gegn spilltum stjórnamálamönnum sem hafa flúið Kína.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×