Erlent

Ráðamenn vestanhafs lýsa yfir stuðningi við mótmælendur í Kína

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Frá samstöðumótmælum í New York.
Frá samstöðumótmælum í New York. AP/John Minchillo

Ráðamenn í Bandaríkjunum og Kanada hvetja stjórnvöld í Kína til að virða rétt borgara sinna til mótmæla og til að ógna ekki eða meiða þá sem mótmæla nú ströngum sóttvarnatakmörkunum í landinu.

Átök brutust út milli lögreglu og mótmælenda í risaborginni Guangzhou í nótt. Mótmælendur köstuðu hlutum að óeirðarlögreglu í sóttvarnagöllum, sem réðist gegn fólkinu og handtók að minnsta kosti tug manna.

Þá voru að minnsta kosti þrír handteknir í þorpinu Houjiao í stjórnsýslueiningunni Haizhu. Bróðurpartur allra Covid-tilvika í Guangzhou hefur greinst í Houjiao en íbúar þar eru um 1,8 milljón talsins. Útgöngubann hefur verið í gildi á stórum svæðum í Houjiao frá því í október.

John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í öryggismálum, sagði í gær að Bandaríkjastórn stæði með þeim sem mótmæltu friðsamlega, hvort sem um væri að ræða Kína eða Íran. Það ætti ekki að ógna mótmælendum né beita þá harðræði. 

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði þarlend stjórnvöld fylgjast vel með þróun mála og að allir Kínverjar ættu að njóta frelsis til að mótmæla og tjá sig.

Mótmælaöldur á borð við þá sem nú gengur yfir Kína eru fátíðar og stjórnvöld hafa meðal annars brugðist við með því að leita uppi mótmælendur og handtaka. Fjöldi þeirra sem hefur verið handtekinn er ókunnur.

Mótmælendur hafa meðal annars kallað eftir afsögn forsetans Xi Jinping.

Utanríkisráðherra Kína hefur sagt að iðka beri réttindi og frelsi innan ramma laganna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.