Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að reiknað sé með ákveðinni suðaustanátt og vætusömu veðri um landið sunnanvert í dag. Hægari suðlæg átt í kvöld og dregur smám saman úr vætu. Víða verður þurrt fyrir norðan.
„Góðar líkur á að hiti fari yfir 10 stig nokkuð víða og jafnvel yfir 13 stig á stöku stað fyrir norðan.
Sunnanátt á morgun. Skúrir sunnan- og vestantil, en léttskýjað á Norður- og Austurlandi. Hitatölur verða þá á niðurleið aftur, en víða verður 2 til 7 stiga hiti á landinu.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag (fullveldisdagurinn): Sunnan 8-15 m/s og skúrir, hvassast vestast, en bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Hiti 2 til 7 stig.
Á föstudag: Suðlæg átt, 3-8 m/s og skúrir sunnantil, stöku slydduél á Vestfjörðum, en bjartviðri norðaustantil. Hiti 0 til 6 stig, mildast syðst.
Á laugardag: Hæg suðlæg eða breytileg átt og víða bjartviðri, en sunnankaldi og skýjað vestast þegar líður á daginn. Hiti kringum frostmark, en hiti að fimm stigum við suðvesturströndina.
Á sunnudag: Suðvestanátt, skýjað með köflum og hlýnar heldur, einkum vestast. Dálítil væta vestantil, en yfirleitt léttskýjað um landið austanvert.
Á mánudag og þriðjudag: Breytileg átt, skýjað með köflum og fremur svalt.