Erlent

Víða rafmagnslaust eftir enn eitt stýriflaugaregnið

Samúel Karl Ólason skrifar
Slökkviliðsmenn að störfum í úthverfi Kænugarðs.
Slökkviliðsmenn að störfum í úthverfi Kænugarðs. AP/Efrem Lukatsky

Umfangsmiklar stýriflaugaárásir Rússa á Úkraínu í dag hafa leitt til þess að rafmagnslaust er víða um landið. Minnst þrír eru látnir og níu særðir í Kænugarði og er borgin þar að auki án neysluvatns í kjölfar árásanna.

Öll þrjú kjarnorkuver landsins sem eru í höndum Úkraínumanna hafa misst tengingu við dreifikerfi landsins í kjölfar árása dagsins.

Meðal þeirra borga sem eru rafmagnslausar eru Lívív, Ódessa og Kharkív, þar sem neysluvatn er einnig óaðgengilegt. Vitali Klitschko, borgarstjóri Kænugarðs, segir að margar af þeim stýriflaugum sem skotið hafi verið á höfuðborgina hafi verið skotnar niður. Minnst ein þeirra hæfði þó íbúðahús.

Heilt yfir segja Úkraínumenn að um sjötíu stýriflaugum hafi verið skotið að Úkraínu en 51 þeirra hafi verið skotið niður. Þar að auki hafi fimm sjálfsprengidrónar verið skotnir niður.

Einnig rafmagnslaust í Moldóvu

Rafmagnsleysið nær einnig til Moldóvu. Maia Sandu, forseti landsins, gagnrýndi Rússa og stríðsrekstur þeirra í Úkraínu í kjölfar árása dagsins. Hún sagði að þó íbúar Moldóvu gætu gert viðgerðir og komið rafmagni á aftur, gætu íbúar Úkraínu ekki lífgað hina látnu við.

Rússar hafa hersveitir innan landamæra Moldóvu, á sjálfstjórnarsvæðinu Transnistríu, og var eitt af upprunalegum markmiðum Rússa að ná allri strandlengju Úkraínu við Svartahaf og þar með landbrú til héraðsins.

Samhliða slæmu gengi á víglínum Úkraínu og aukinni gagnrýni heima fyrir hafa forsvarsmenn rússneska hersins gert ítrekaðar eldflauga- og drónaárásir á borgaraleg skotmörk og innviði í Úkraínu. Stór hluti þessa árása hefur dreifst að orkuverum og dreifikerfi Úkraínu.

Markmiðið með þessum árásum virðist vera að draga baráttumóðinn úr Úkraínumönnum og grafa undan grunnstoðum úkraínska ríkisins og gera rekstur ríkisins erfiðari til lengri tíma. Með þessu vilja ráðamenn í Moskvu einnig draga úr gagnrýni heima fyrir á stríðsrekstur þeirra í Úkraínu.

Úkraínumenn segja þessar árásir ekki draga úr þeim móðinn. Þvert í stað sýni þar fram á nauðsyn þess að sigra Rússa sem fyrst.

Undanfarnar vikur hefur rafmagnsleysi verið algengt í Úkraínu og hafa yfirvöld hvatt þá sem geta, að ferðast til annarra landa og verja vetrinum þar.


Tengdar fréttir

Berjast um mikilvægan skaga við ósa Dniproár

Yfirvöld í Úkraínu segjast ætla að reka rússneska hermenn frá mikilvægum skaga vestur af Kherson-borg. Úkraínskir sérsveitarmenn eru þegar sagðir berjast við rússneska hermenn á Kinburn-skaga við ósa Dniproár við Svartahaf.

Vopnaframleiðendur beðnir um að bretta upp ermarnar

Ráðamenn á Vesturlöndum hafa áhyggjur af því hve mikið vestrænir herir hafa þurft að ganga á skotfærabirgðir sínar vegna vopnasendinga til Úkraínu. Vopnaframleiðendur hafa verið beðnir um að bretta upp ermarnar og auka framleiðslu á vopnum og skotfærum og sérstaklega með tilliti til þess að stríðinu í Úkraínu mun líklega ekki ljúka á næstunni.

Milljónir í hættu á að deyja sökum kulda

Milljónir Úkraínumanna eru í hættu á að deyja í vetur sökum kulda, segir Alþjóðaheilbrigðisstofnunin. Helmingur orkuinnviða landsins er skemmdur eða ónýtur og um 10 milljón manns án rafmagns. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×