Enski boltinn

United íhugar að reka Ronaldo

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo er markahæsti landsliðsmaður sögunnar.
Cristiano Ronaldo er markahæsti landsliðsmaður sögunnar. getty/Gualter Fatia

Manchester United vinnur nú að því að reka Cristiano Ronaldo frá félaginu. Portúgalinn gerði sem kunnugt er allt vitlaust með viðtalinu umtalaða við Piers Morgan.

Samkvæmt heimildum Chris Wheeler, blaðamanns á Daily Mail, hefur United tekið fyrstu skrefin í átt að því að reka Ronaldo frá félaginu fyrir samningsbrot.

Samningnum yrði þá rift og Ronaldo fengi engar bætur. Samningur hans rennur út í sumar og Portúgalinn yrði þá af þeim sextán milljónum punda sem United hefði átt að borga honum í laun.

Ronaldo fór mikinn í viðtalinu og úthúðaði meðal annars eigendum félagsins, knattspyrnustjóranum Erik ten Hag, Wayne Rooney og svo mætti lengi áfram telja.

Ronaldo er núna staddur í Katar þar sem heimsmeistaramótið fer fram. Portúgal er í riðli með Úrúgvæ, Suður-Kóreu og Gana. Hann spilaði ekki með Portúgal í 4-0 sigri á Nígeríu í vináttulandsleik í gær vegna magakveisu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.