Með Perry í þjálfarateyminu verða Vignir Snær Stefánsson aðstoðarþjálfari og Melkorka Rán Hafliðadóttir styrktarþjálfari.
Perry hefur starfað við þjálfun á Íslandi frá árinu 2019, fyrst sem aðstoðarþjálfari hjá karlaliði Þórs á Akureyri ásamt því að sinna markmannsþjálfun hjá félaginu.
Hann tók svo við þjálfun Hamranna og var jafnframt ráðinn sem aðstoðarþjálfari hjá kvennaliði Þórs/KA fyrir tímabilið 2021. Hann var síðan annar af aðalþjálfurum liðsins á nýafstöðnu tímabili en hætti eftir tímabilið.
Eins fram kemur í frétt á heimasíðu KR þá hefur Perry einnig töluverða reynslu af þjálfun á Englandi og í Bandaríkjunum. Hann var meðal annars hjá kvennaliði Chelsea sem og akademíu drengja og stúlkna í félaginu og um tíma við markmannsþjálfun hjá Crystal Palace og yfirþjálfari stúlkna- og drengjaliða í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum.
Perry er nú að ljúka við UEFA-A gráðu í þjálfun.
Vignir Snær Stefánsson hefur verið við þjálfun yngri flokka hjá Gróttu/KR síðustu misseri og var aðstoðarþjálfari hjá Gróttu í 2. deild kvenna í sumar.
Melkorka Rán Hafliðadóttir, sem kemur einnig inn í þjálfarateymið mun sjá um styrktarþjálfun liðsins. Melkorka sem á að baki afreksíþróttaferil í frjálsum og er í meistaranámi í íþróttafræði hjá HR þekkir vel til í KR þar sem hún sinnti styrktarþjálfun meistaraflokks karla á nýliðnu tímabili og að hluta hjá kvennaliðinu.
Perry Mclachlan sá KR-liðið taka fjögur stig og skora sex mörk í tveimur leikjum á móti liði hans, Þór/KA, síðasta sumar. KR fékk aðeins sex stig og skoraði samtals fjórtán mörk í öllum hinum sextán leikjunum sínum.