Erlent

Segir kjarn­orku­á­rás jafn­gilda enda­lokum stjórnar­tíðar Kim

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Austin var afdráttarlaus í ummælum sínum um afleiðingar mögulegrar kjarnorkuárásar.
Austin var afdráttarlaus í ummælum sínum um afleiðingar mögulegrar kjarnorkuárásar.

Lloyd Austin, varnarmálráðherra Bandaríkjanna, sagði í gær að kjarnorkuárás Norður-Kóreu á Bandaríkin eða bandamenn þeirra myndi binda enda á stjórnartíð Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu.

Norður-Kóreumenn hafa verið iðnir við eldflaugatilraunir síðust daga og meðal annars skotið á loft langdrægri eldflaug sem er sögð draga til Bandaríkjanna. Stjórnvöld í Suður-Kóreu segja hins vegar mögulegt að tilraunin hafi mistekist.

Ummæli Austin voru höfð eftir í yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla í kjölfar fundar hans við Lee Jong-sup, varnarmálaráðherra Suður-Kóreu. Svipað orðalag var að finna í samantekt um varnarstefnu Bandaríkjanna, sem var birt í síðustu viku.

Þar sagði meðal annars að Bandaríkjamenn væru meðvitaðir um getu Norður-Kóreu til að standa að hinum ýmsu árásum, meðal annars með kjarnorkuvopn og efnavopn. Þess vegna væri mikilvægt að senda skýr skilaboð til þarlendra stjórnvalda um að þau myndu ekki standa af sér eigin kjarnorkuárás á önnur ríki.

Í yfirlýsingunni sem send var á fjölmiðla sagði einnig að Bandaríkjamenn stæðu að fullu við skuldbindingar sínar um að koma Suður-Kóreu til varna og að sameiginlegum heræfingum ríkjanna yrði haldið áfram.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.