Erlent

Enn streym­a eld­flaug­arn­ar frá Kór­e­u­skag­an­um

Samúel Karl Ólason skrifar
AP22307159394961
AP/Shuji Kajiyama

Minnst sex eldflaugum var skotið á loft frá Norður-Kóreu í dag og þar á meðal einni langdrægri. Það er í kjölfar þess að rúmum tuttugu eldflaugum var skotið á loft í gær.

Mikil spenna er á svæðinu en hermenn frá Bandaríkjunum og Suður-Kóreu hafa staðið í sameiginlegum æfingum sem ráðamenn í Norður-Kóreu hafa brugðist reiðir við. Ákveðið var í dag að lengja æfingarnar vegna ítrekaðra eldflaugaskota frá Norður-Kóreu, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Frá Norður-Kóreu bárust þau skilaboð í dag að æfingarnar væru „mikil mistök“.

Sérfræðingar segja Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, vilja þvinga Bandaríkjamenn til að viðurkenna ríkið sem kjarnorkuríki og semja um niðurfellingu viðskiptaþvingana og refsiaðgerða gegn ríkinu.

Eldflaugaskot Kóreumanna og meðfylgjandi eldflaugaþróun er brot á samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Ríkisstjórn Kim Jong Un setti met í fyrra með því að skjóta tugum eldflauga á loft. Það met hefur ekki verið slegið á þessu ári en vísindamenn einræðisríkisins hafa skotið fjölmörgum eldflugum á loft frá því í september. Þar á meðal var eldflaugaskot sem sagt var vera æfing fyrir mögulega kjarnorkuvopnaárás á Suður-Kóreu og bandarísk skotmörk á svæðinu.

Yonhap fréttaveitan frá Suður-Kóreu segir líklegt að langdræga eldflaugin sem skotið var á loft í morgun hafi líklega bilað. Eldflaugin hafi líklega verið af gerðinni Hwasong-17 en hún flaug um 760 og náði mest 1.920 kílómetra hæð. Þegar mest var náði hún fimmtán földum hljóðhraða, samkvæmt herforingjaráði Suður-Kóreu.

Sjá einnig: Segja skot stærstu eldflaugarinnar hafa verið sviðsett

Seinna stig eldflaugarinnar virðist þó hafa bilað en þetta var í sjöunda sinn sem langdrægri eldflaug var skotið frá Norður-Kóreu á þessu ári.

Síðustu viðræður milli embættismanna frá Norður-Kóreu og Bandaríkjunum áttu sér stað árið 2019 og er ekkert útlit fyrir frekari viðræður. Frá 2019 hafa Norður-Kóreumenn orðið sífellt vígreifari í orðum sínum og hótunum í garð Bandaríkjanna og annarra nágranna sinna.

Á þessum tíma hafa ítrekaðar tilraunir verið gerðar í Norður-Kóreu með langdrægar eldflaugar en þær eru í trássi við samþykktir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Ekki hefur verið gerð tilraun með kjarnorkuvopn frá árinu 2017.

Kim sagði fyrr á árinu að hann myndi aldrei láta kjarnorkuvopn sín af hendi.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×