Íslenski boltinn

Valur tilkynnir um komu Sigurðar

Sindri Sverrisson skrifar
Sigurður Höskuldsson stýrði Leikni í fjórar leiktíðir.
Sigurður Höskuldsson stýrði Leikni í fjórar leiktíðir. vísir/tjörvi týr

Sigurður Heiðar Höskuldsson var í dag formlega kynntur til leiks sem aðstoðarþjálfari Vals í fótbolta en hann kemur til félagsins eftir að hafa síðast þjálfað Leikni.

Sigurður verður Arnari Grétarssyni, nýjum aðalþjálfara Vals, til halds og trausts en þeir taka við af Ólafi Jóhannessyni og Helga Sigurðssyni.

Sigurður hefur stýrt Leikni síðustu fjórar leiktíðir og kom liðinu upp í efstu deild árið 2020, og hélt því uppi í fyrra fyrstur þjálfara. Liðið féll hins vegar úr Bestu deildinni í síðasta mánuði.

Sigurður tilkynnti leikmönnum sínum í byrjun október að hann myndi hætta með Leikni eftir tímabilið og var sú ákvörðun hans meðal annars gagnrýnd í Stúkunni á Stöð 2 Sport.

Sigurður, sem er 37 ára gamall, er íþróttafræðingur og með A-gráðu þjálfaramenntunar frá KSÍ auk þess að vinna að því að fá UEFA Pro gráðu.

Auk þess að starfa sem aðstoðarþjálfari mun Sigurður koma að afreksþjálfun yngri leikmanna Vals og móta framtíðarstefnu knattspyrnudeildar með Arnari, þjálfarateymi meistaraflokks kvenna og Eysteini Húna Haukssyni yfirþjálfara.

Leiknir hefur ekki tilkynnt um arftaka Sigurðar og því óvíst hver mun stýra liðinu í Lengjudeildinni á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×