Íslenski boltinn

Guðrún í Val og fetar í fótspor frænda sinna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir brosir út að eyrum eftir að Afturelding tryggði sér sæti í Bestu deildinni á þarsíðasta tímabili. Hún er núna orðin leikmaður Vals.
Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir brosir út að eyrum eftir að Afturelding tryggði sér sæti í Bestu deildinni á þarsíðasta tímabili. Hún er núna orðin leikmaður Vals. hafliði breiðfjörð

Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir er gengin í raðir Vals frá Aftureldingu. Hún skrifaði undir þriggja ára samning við Íslands- og bikarmeistarana.

Guðrún var markahæst í Lengjudeildinni 2021 með 23 mörk þegar Afturelding endaði í 2. sæti og tryggði sér þar með sæti í Bestu-deildinni. Meiðsli gerðu henni erfitt fyrir í sumar og hún lék aðeins átta deildarleiki og skoraði tvö mörk. Mosfellingar enduðu í 9. sæti og féllu. 

Val gekk öllu betur á síðasta tímabili, vann Bestu-deildina og Mjólkurbikarinn og var ekki langt frá því að komast í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

Valsarar ætla ekkert að gefa eftir og hafa nú sótt Guðrúnu úr Mosfellsbænum. Henni verður væntanlega ætlað að fylla skarð Elínar Mettu Jensen sem er hætt. Auk hennar hefur Ásgerður Stefanía Baldursdóttir lagt skóna á hilluna og þá er óvíst hvort Mist Edvarsdóttir spilar aftur fótbolta.

Guðrún, sem hefur alls leikið 81 leik í meistaraflokki og skorað fjörutíu mörk, er ekki sú eina í fjölskyldunni sem hefur spilað með Val. Frændur hennar, Arnór Guðjohnsen, Eiður Smári Guðjohnsen og Sveinn Aron Guðjohnsen, hafa einnig spilað á Hlíðarenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×