Íslenski boltinn

Adda áfram á Hlíðarenda en í öðru hlutverki

Sindri Sverrisson skrifar
Adda Baldursdóttir með skjöldinn á lofti í Íslandsmeistarafögnuði Vals í haust.
Adda Baldursdóttir með skjöldinn á lofti í Íslandsmeistarafögnuði Vals í haust. vísir/Diego

Þrátt fyrir að hafa lagt takkaskóna á hilluna verður Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, eða Adda eins og hún er kölluð, áfram starfandi hjá Val næstu misserin.

Valsmenn tilkynntu í dag að Adda hefði verið ráðin aðstoðarþjálfari kvennaliðs félagsins í knattspyrnu. Hún verður því sínum gamla þjálfara Pétri Péturssyni til halds og trausts. Matthías Guðmundsson, sem ráðinn var aðstoðarþjálfari fyrir ári síðan, verður einnig áfram í teyminu.

Adda, sem er 35 ára, gekk í raðir Vals frá Stjörnunni fyrir tímabilið 2019 og vann með Val þrjá Íslandsmeistaratitla og einn bikarmeistaratitil á fjórum árum. Áður hafði hún verið fyrirliði hjá Stjörnunni og unnið fjóra Íslandsmeistaratitla og þrjá bikarmeistaratitla en Adda hóf meistaraflokksferilinn hjá Breiðabliki árið 2004. 

Þá á Adda að baki 10 A-landsleiki en hún lauk leikmannaferlinum á því að vinna tvöfalt með Val nú í haust.

„Adda sem er sterkur leiðtogi hefur verið mikilvægur hlekkur innan Vals síðan hún gekk til liðs við félagið 2019 og hefur gríðarlega reynslu sem leikmaður og er margfaldur Íslands-og bikarmeistari. Það verður gaman að fylgjast með Öddu takast á við þjálfarastarfið og væntir félagið mikils af hennar störfum á komandi árum,“ segir í yfirlýsingu Vals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×