Erlent

Heita for­dæma­lausum við­brögðum ef Norður-Kórea hefur kjarn­orku­vopna­til­raunir á ný

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fyrr í haust voru lög samþykkt í Norður-Kóreu þess efnis að ríkið væri nú kjarnorkuveldi.
Fyrr í haust voru lög samþykkt í Norður-Kóreu þess efnis að ríkið væri nú kjarnorkuveldi. epa/KCNA

Fulltrúar Bandaríkjanna, Japan og Suður-Kóreu hafa varað við fordæmalausum viðbrögðum ef Norður-Kórea framkvæmir sjöundu tilraun sína með kjarnorkuvopn. Stjórnvöld Vestanhafs og bandamenn þeirra grunar að kjarnorkuvopnatilraunir Norður-Kóreu séu að hefjast á ný.

Tilraunirnar hafa legið niðri frá 2017.

Varautanríkisráðherrar Bandaríkjanna, Japan og Norður-Kóreu hafa fundað um málið og Reuters hefur eftir Wendy Sherman, varautanríkisráðherra Bandaríkjanna, að stjórnvöld í Norður-Kóreu séu hvött til að halda að sér höndum en kjarnorkuvopnatilraunir nú myndu hafa afleiðingar í för með sér fyrir heiminn allan.

Sherman var ómyrk í máli og sagðist einnig vona að öll þau ríki sem ættu sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna gerðu sér grein fyrir því að notkun kjarnorkuvopna, í hvaða mynd sem er, myndu hafa gríðarleg áhrif á skipan heimsmála.

Í fyrsta sinn frá því að Norður-Kórea hóf tilraunir með kjarnorkuvopn árið 2006 beittu Kínverjar og Rússar fyrr á þessu ári neitunarvaldi sínu í öryggisráðinu gagnvart tillögu um frekari refsiaðgerðir gegn Norður-Kóreu.

Ráðherrar Bandaríkjanna, Japan og Suður-Kóreu segjast hafa skuldbundið sig til að auka samstarf sitt á sviði varnarmála. 

Hvað varðaði Taívan ítrekaði Sherman að Bandaríkin styddu ekki sjálfstæðisbaráttu Taívan en það breytti því ekki að Bandaríkjamenn myndu vinna með Japönum og Suður-Kóreu að því að aðstoða Taívani við að verja sig gegn mögulegum aðgerðum Kína.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×