Enski boltinn

Emery tekur við af Gerrard hjá Aston Villa

Valur Páll Eiríksson skrifar
Emery snýr aftur til Englands.
Emery snýr aftur til Englands. Sebastian Widmann - UEFA/UEFA via Getty Images

Spánverjinn Unai Emery mun taka við sem þjálfari Aston Villa um mánaðarmótin en félagið tilkynnti um þetta í kvöld. Emery hættir sem þjálfari Villarreal á Spáni til að reyna aftur fyrir sér á Englandi.

Emery hefur stýrt Villarreal frá árinu 2020 og vann með liðinu Evrópudeildina, eftir sigur á Manchester United í úrslitum, sumarið 2021. Áður en hann tók við Villarreal var hann þjálfari Arsenal þar sem honum tókst ekki að slá í gegn en fékk þó silfur í Evrópudeildinni sumarið 2019.

Hann snýr nú aftur til Englands og tekur við liði Aston Villa, sem vísaði Steven Gerrard úr starfi þjálfara liðsins í síðustu viku. Emery er afar reyndur þjálfari sem hefur einnig stýrt Valencia, Spartak Moskvu, Sevilla og Paris Saint-Germain á sínum ferli.

Hann vann þrjá Evrópudeildartitla með Sevilla og vann frönsku deildina með PSG, auk tveggja franskra bikartitla, tveggja deildabikartitla og tveggja franskra ofurbikarstitla.

Hann tekur við Villa liði sem er með 12 stig í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum fyrir ofan fallsvæðið. Liðið vann öruggan 4-0 sigur á Brentford um helgina í fyrsta leiknum eftir að Gerrard var vísað úr starfi.

Emery tekur formlega við liðinu 1. nóvember þegar búið verður að ganga frá atvinnuleyfi fyrir kappann en ferlið í kringum slíkt hefur orðið flóknara eftir að Bretland gekk úr Evrópusambandinu. Hann mun því ekki stýra liðinu er það sækir Newcastle United heim á laugardaginn kemur.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.