Enski boltinn

Gerrard fékk far með liðsrútunni eftir brottreksturinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Steven Gerrard var aðeins tæpt ár við stjórnvölinn hjá Aston Villa.
Steven Gerrard var aðeins tæpt ár við stjórnvölinn hjá Aston Villa. getty/Ryan Pierse

Steven Gerrard ferðaðist aftur til Birmingham með leikmannahópi og starfsliði Aston Villa þrátt fyrir að hafa verið rekinn strax eftir tap fyrir Fulham í gær.

Villa sótti ekki gull í greipar nýliða Fulham í gær og tapaði 3-0. Um tuttugu mínútum eftir leikinn var Gerrard svo rekinn.

Þrátt fyrir það ferðaðist hann með liðsrútu Villa aftur til Birmingham frá London. Hann kvaddi svo leikmenn liðsins og starfsfólk á æfingasvæðinu. The Athletic greinir frá þessu.

Samkvæmt frétt The Athletic naut Gerrard stuðnings forráðamanna Villa allt þar til liðið tapaði fyrir Fulham í gær. Það reyndist kornið sem fyllti mælinn.

Næsti leikur Villa er gegn Brentford á sunnudaginn. Knattspyrnustjóri Brentford, Thomas Frank, er einn þeirra sem koma til greina sem eftirmaður Gerrards.

Villa er í 17. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og hefur aðeins unnið tvo af fyrstu ellefu leikjum sínum á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×