Enski boltinn

Darwin Nunez er sá fljótasti í sögu ensku úrvalsdeildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool framherjinn Darwin Nunez er eldsnöggur eins og hann sýndi í leiknum á móti West Ham.
Liverpool framherjinn Darwin Nunez er eldsnöggur eins og hann sýndi í leiknum á móti West Ham. AP/Jon Super

Ef einhver leikmaður Liverpool hefur verið gerður að blórböggli fyrir slaka byrjun liðsins þá er það nýi framherjinn Darwin Nunez.

Liverpool borgaði metfé fyrir Úrúgvæmanninn sem fékk það risastóra verkefni að fylla í skarð Sadio Mane. Það er náttúrulega afar erfitt ekki síst þegar þín staða er ekki alveg á sama stað á vellinum.

Nunez hefur heldur ekki gert mikið í samanburði við Erling Braut Haaland sem erkifjendurnir í Manchester City keyptu á sama tíma enda hefur Norðmaðurinn raðað inn mörkum.

Hinn 23 ára gamli Nunez er þó samt búinn að skora fimm mörk í tólf leikjum á leiktíðinni og hann tryggði Liverpool liðinu dýrmætan 1-0 sigur á West Ham í vikunni. Hann hefur nú skorað í þremur síðustu byrjunarliðsleikjum sínum í deild og Meistaradeild á móti Arsenal, Rangers og West Ham.

Sigurmarkið hans á móti West Ham var það fyrsta sem hann skorað á Anfield sem leikmaður Liverpool.

Nunez hefur einnig tekist að setja nýtt hraðamet í ensku úrvalsdeildinni á þessum fyrstu vikum sínum í enska boltanum.

Nunez mældist á 38 kílómetra hraða í leiknum á móti Hammers og bætti þar met Kyle Walker.

Walker hafði verið sá fljótasti í sögu ensku úrvalsdeildarinnar þegar hann mældist á 37,802 kílómetra hraða í leik með Manchester City árið 2020.

Núna er Nunez sá fljótast í sögunni eða frá því að menn fóru að mæla hraða á mönnum á þessari öld.

Nunez var sá næstfljótasti í Meistaradeildinni á síðustu leiktíð þegar hann mældist á 36,5 kílómetra hraða í leik með Benfica.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×