Umfjöllun og viðtöl: Fram - ÍBV 1-3 | ÍBV með þriðja sigurinn í röð

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Jannik Holmsgaard, leikmaður Fram.
Jannik Holmsgaard, leikmaður Fram. vísir/diego

Fram tók á móti ÍBV í þriðju umferð neðri hluta Bestu-deildar karla í fótbolta í dag. Það var mikið undir fyrir ÍBV sem þurfti sigur til að vera öruggt frá fallsæti. ÍBV byrjaði leikinn töluvert betur og leiddi 3-0 yfir í hálfleik. Framarar minkuðu muninn í seinni hálfleik en það dugði ekki til og 3-1 sigur ÍBV staðreynd. Umfjöllun og viðtöl væntanleg.

Það var greinilegt strax frá fyrstu mínútu hvort liðið hafði meira undir með sigri. Fyrsta mark ÍBV kom eftir einungis þriggja mínútna leik. Þá ætla varnarmenn Fram að hreinsa boltann burtu úr teignum en boltinn dettur fyrir Sigurð Arnar Magnússon sem var vel staðsettur og skýtur boltanum beint í fjær hornið og kemur ÍBV í 1-0.

Fram sótti á og reyndi að spila boltanum á milli sín við teig ÍBV en varnarmenn ÍBV voru alla jafna fljótir að koma boltanum fram og unnu þeir meira með skyndisóknir.

Þegar tæplega 25 mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik keyrir Jesus Natividad Yendis Gomez inn í Guðjón Erni Hrafnkelsson og dæmdi Helgi Mikael víti. Eiður Aron fór á punktinn gegn Ólafi Íshólm og gerði Ólafur sér lítið fyrir og varði.

Þegar rúmlega hálftími var liðinn er Arnar Breki Gunnarsson á ferðinni. Arnar keyrir upp völlinn og á fast skot sem endar í stönginni, boltinn fer af stönginni beint í fæturnar á Sigurði Arnari Magnússyni sem skorar sitt annað mark og kemur ÍBV í 2-0.

Tæplega þremur mínútum síðar gefur Felix Örn Friðriksson langan bolta inn í teig. Þar er Halldór Jón Sigurður Þórðarson réttur maður á réttum stað og skorar þriðja mark ÍBV, staðan 3-0. Hálfleikstölur 3-0 fyrir ÍBV. 

Framarar mættu töluvert ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og byrjuðu strax að sækja stíft að marki ÍBV. 

Þegar tæplega 20 mínútur voru til leiksloka tekur Tiago Manuel Da Silva hornspyrnu sem endar á höfðinu á Þóri Guðjónssyni sem á góðum stað og skallar boltann í netið, staðan 3-1. 

Bæði lið skiptust á að sækja á til leiksloka þrátt fyrir að Framarar hafi verið töluvert ákveðnari í sínum sóknarleik. Ekki féll boltinn í netið og lokatölur 3-1.

Afhverju vann ÍBV?

Þeir gerðu breytingar í sínum leik og voru með fimm manna vörn og settu Sigurð Arnar Magnússon á miðjuna sem var virkilega klókt. Það hægði á sóknarleik Framara og var Sigurður að finna sig virkilega vel á miðjunni og skoraði til að mynda tvö mörk. 

Hverjir stóðu upp úr?

Sigurður Arnar átti stór fínan leik hjá ÍBV í dag með sín tvö mörk. Halldór Jón Sigurður Þórðarsson var góður og skoraði eitt mark. Þessi fimm manna vörn ÍBV stóð eins og klettur og gerði Jóni Kristni auðvelt fyrir að halda markinu hreinu í fyrri hálfleik. Í heildina var ÍBV liðið mjög gott í dag. 

Framarar áttu seinni hálfleikinn og þar var Guðmundur Magnússon virkilega öflugur og átti hvert færið á fætur öðru. Þórir Guðjónsson kom inn fyrir Hlyn og átti góðan leik, eitt mark og var tæpur að skora annað.  

Hvað gekk illa?

Framarar áttu erfitt með að leysa uppleggið sem ÍBV tefldi fram í dag. Þeir áttu erfitt með að finna sig sóknarlega sem er óvenjulegt fyrir Fram og svo gleymdi vörnin sér á köflum sem ÍBV nýtti sér.

Hvað gerist næst?

Laugardaginn 22. október kl 14:00 sækja Eyjamenn ÍA heim. Sunnudaginn 23. október kl 14:00 fá Framarar FH í heimsókn

Jón Þórir Sveinsson: „Þetta var með því slakara sem við höfum spilað í sumar“

Jón Þórir Sveinsson (með derhúfuna) var ekki sáttur í leikslok.Vísir/Diego

„Ég er svekktur að hafa tapað leiknum og mjög svekktur með fyrri hálfleikinn hjá okkur, hann var slakur. Þetta var með því slakara sem við höfum spilað í sumar. Við aðeins girtum okkur í brók í seinni og komum til baka. Við stjórnuðum seinni hálfleiknum frá fyrstu til síðustu mínútu en því miður náðum við ekki að skora nema eitt mark,“ sagði Jón Þórir Sveinsson, þjálfari Fram, svekktur eftir 3-1 tap á móti ÍBV. 

„Við gátum ekki annað en gert betur og það er bara þannig. Við ætluðum að vinna seinni hálfleikinn og vonandi með nógu mörgum mörkum til þess að fá eitthvað út úr honum. Við unnum hann en það var bara eitt mark. Það dugði ekki til nema 3-1 tap.“

Aðspurður hvað gekk illa í þeirra leik í dag sagði Jón Þórir þetta:

„Við erum að tapa boltanum illa. Það er erfitt kannski að átta sig akkurat á því. Við erum að reyna spila boltanum en sendingar sem misheppnast, við missum boltann og það er klaufalegt. Það er eitthvað sem við vissum að við mættum ekki bjóða ÍBV upp á því að þeir eru mjög hættulegir í þannig aðstæðum, að sækja hratt nálægt markinu. Þeir nýttu sér það vel í fyrri hálfleiknum en á móti kom að þá var lítið sem ekkert að gerast hjá þeim en við náðum ekki að skora nógu mörg mörk.“

Framara eiga FH í næsta leik og segir Jón Þórir að þeir þurfi að eiga betri leik en þennan og vinna á heimavelli næstkomandi laugardag. 

„Við verðum aðeins að stíga upp og mæta til leiks. Við eigum FH næst og þeir eru ennþá í baráttu um að falla ekki. Við þurfum aðeins að gera betur heldur en í dag og vinna þann leik. Hann er á heimavelli og við viljum vinna leik á heimavelli og það er það sem að við ætlum að gera næstu helgi.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira