Umfjöllun og viðtöl: KA 1-2 Breiðablik | Níu fingur Blika

Árni Gísli Magnússon skrifar
Dagur Dan Þórhallsson í leik með Blikum í sumar. 
Dagur Dan Þórhallsson í leik með Blikum í sumar.  vísir/vilhelm

Breiðablik steig stórt skref að Íslandsmeistaratitlinum með 2-1 sigri á KA norðan heiða. Blikar þurfa nú einungis tvö stig úr síðustu þremur leikjum sinum til að tryggja sér titilinn.

Fyrsta færi leiksins kom eftir 5 mínútur. Höskuldur Gunnlaugsson tók þá stutta hornspyrnu og fékk boltann aftur og átti góða fyrgjöf inná teiginn beint á kollinn á Kristni Steindórssyni inná markteignum en skalli hans beint á Jajalo sem varði vel.

Rúmum 10 mínútum síðar komst Kristinn Steindórsson í hörku færi þegar boltinn datt fyrir hann í teignum eftir að Blikar sóttu upp vinstra megin. Skot hans var ekki nógu hnitmiðað og varði Jajalo í horn.

Strax í kjölfarið keyrði Sveinn Margeir upp hægri vænginn og setti boltann inn á Jakob Snæ á teignum sem átti skot að marki sem Anton Ari varði aftur fyrir.

Á 26. mínútu komu heimamenn boltanum í netið en markið dæmt ógilt. Hallgrímur Björn kom þá boltanum aftur inn á teig eftir fyrirgjöf og þaðan fór boltinn af varnarmanni Blika og í netið. Jóhann dómari mat það svo að boltinn hafi verið kominn aftur fyrir endamörk þegar Hrannar setti hann fyrir markið og staðan því áfram markalaus.

Á 34. mínútu fékk Kristinn Steindórsson enn eitt færið og skoraði í þetta sinn. Jason Daði tók hornið stutt, fékk boltann aftur, setti hann inn á teig þar sem boltinn fór í varnarmann KA og datt fyrir Kristinn sem setti boltann laglega í netið og kom Blikum í forystu.

Engu máttu svo muna að Kristinn bætti öðru marki við strax í næstu sókn en skot hans rétt fram hjá. Staðan 1-0 í hálfleik gestunum í vil.

Þegar seinni hálfleikur var 10 mínútna gamall fékk Jason Daði sannkallað dauðafæri þegar hann komst inn á teig með boltann einn gegn Jajalo sem gaf allt fjærhornið en varði meistaralega með hægri fæti og kom í veg fyrir að Blikar tvöfölduðu forystu sína.

Á 84. mínútu fengu heimamenn vítaspyrnu þegar Andri Rafn Yoeman fór aftan í Ásgeir Sigurgeirsson. Hallgrímur Mar steig á punktinn og skoraði örugglega og jafnaði metin.

Blikar voru hins vegar ekkert á því að ætla tapa og skoruðu sigurmark leiksins einungis tveimur mínútum seinna. Ísak Snær fékk þá boltann rétt fyrir utan teig og náði að losa hann á hárréttu augnabliki inn fyrir á Jason Daða sem kláraði færi sitt vel og tryggði Blikum 2-1 sigur.

KA menn vildu fá víti á síðustu andartökum leiksins þegar Viktor Örn Margeirsson reif Jakob Snæ nokkuð harkalega niður en ekkert var dæmt og Blikar fögnuðu því sigri.

Óskar Hrafn og Halldór Árnason.Vísir/Hulda Margrét

Óskar Hrafn: Sprettum á fætur eftir að hafa verið slegnir niður

„Mér líður bara vel. Ég er auðvitað bara sáttur, ég er sáttur á tvo vegu, mér fannst frammistaðan stærsta hluta leiksins vera mjög öflug. Við sköpuðum okku fullt af færum og í raun og veru hefðum við átt að vera búnir að gera út um þennan leik miklu fyrr en hins vegar er það þannig að KA liðið er þannig gert að þeir eru búnir að skora tæplega helminginn af mörkunum sínum á síðustu 15 mínútunum í leikjunum í sumar og við vissum það alltaf að þetta væri hættan,” sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks að leik loknum. 

Óskar heldur áfram: „Þeir fá víti, var þetta víti eða ekki víti? Ég veit það ekki. Ég sé þetta með Blikagleraugum og þá segi ég að þetta sé ekki víti. Mér er sagt að þetta hafi verið soft en saga okkur í sumar hefur verið þannig að þegar við höfum verið slegnir niður sprettum við á fætur og komum til baka hvort sem það er eftir tapleik í deildinni eða við fáum á okkur mark sem kemur á erfiðum tíma og ég er auðvitað bara mjög stoltur af liðinu fyrir það, mér finnst þetta gott svar.

Ég er ánægður með frammistöðuna af stærstum hluta en við hefðum mátt vera aðeins betri á síðasta þriðjung, nýta færin betur, bera meiri virðingu fyrir færunum en baráttan og það sem menn lögðu í þetta og náðu að opna KA mennina var ég ánægður með og karakterinn sem þeir sýna í lokin.”

Hallgrímur: Seinni hálfleikurinn var flottur hjá okkur

„Bara gríðarlega svekkjandi úr því sem komið var. Mér fannst þegar við jöfnuðum mómentið vera með okkur og fáum á okkur frekar klaufalegt mark. Rodri fær dauðafæri og mér finnst við eiga fá víti í lokin líka og það var svekkjandi en kannski ekkert ósanngjarnt að Breiðablik hafi unnið þegar þú lítur yfir leikinn. Jajalo bjargar okkur tvisvar í fyrri hálfleik.

Mér fannst fyrri háfleikurinn ekki nógu góður hjá okkur, seinni hálfleikurinn flottur og bara svekkelsi úr því sem komið var að við höfum ekki náð allavega jafntefli,” sagði Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA um þróun leiksins.

Hallgrímur Jónsson, þjálfari KA, á hliðarlínunni í leik hjá KA. Hulda Margrét

Af hverju vann Breiðablik?

Þeir voru heilt yfir betri í dag. KA jafnar þegar 6 mínútur eru eftir en Blikar sýna af hverju þeir eru bestir og komast strax aftur yfir sem fer langleiðina með titilinn fyrir þá.

Hverjir stóðu upp úr?

Jason Daði skorar sigurmarkið og var mjög hættulegur að venju í flestum sóknum Blika. Sömu sögu má segja um Kristinn Steindórsson sem hefði hæglega geta skorað fleiri mörk í dag.

Hvað gekk illa?

Seinni hálfleikur var ekki eins gæðamikill og sá fyrri sem er svo sem skiljanlegt þegar annað liðið er að verja forystu. Það var þó heldur betur hasar undir lokin.

Hvað gerist næst?

KA fer í Víkina og mætir þar Víkingi sem þeir eru í baráttu við um annað sæti deildarinnar. Leikurinn fer fram laugardaginn 15. október kl. 17:00

Sama dag mætast Breiðablik og Valur á Kópavogsvelli kl. 19:15. Með sigri getur Breiðablik tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira