Veður

Norð­vestan strekkingur austan­til og bjart að mestu fyrir sunnan

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti á landinu verður á bilinu eitt til tíu stig.
Hiti á landinu verður á bilinu eitt til tíu stig. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan spáir norðvestan strekkingi austantil á landinu í dag, en að það lægi í öðrum landshlutum. Dálítil rigning eða slydda með köflum norðanlands, en bjart að mestu um landið sunnanvert.

Á vef Veðurstofunnar segir að hitinn á landinu verði á eitt til tíu stig, mildast syðst.

Á morgun kemur lægð inn á Grænlandshaf. Henni fylgir suðaustan kaldi eða stinningskaldi og rigning með köflum eða skúrir. Hiti 3 til 9 stig yfir daginn. Norðaustanlands verður heldur svalara og þar gæti úrkoman fallið sem slydda.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Á sunnudag verður lægðin við austurströndina og dýpkar ört. Þá er útlit fyrir að það gangi í norðan hvassviðri eða storm með mikilli slyddu eða snjókomu á Norður- og Austurlandi. Þar verður ekkert ferðaveður ef að líkum lætur. Sunnanlands verður úrkomulítið en þar gæti samt sem áður orðið mjög hvasst, til að mynda undir Vatnajökli.

Það er enn nokkur breytileiki í spám varðandi þetta veður, t.d. benda nýjustu spár til þess að vesturhluti landsins sleppi betur en útlit var fyrir í gær. Það gæti hins vegar hæglega breyst aftur og er fólk hvatt til að fylgjast vel með veðurspám.

Gular viðvaranir taka gildi á norðanverðu landinu um helgina.Veðurstofan

Gular viðvaranir um helgina

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir vegna storms á norðurhluta landsins um helgina.

Vestfirðir

  • 9. okt. kl. 06:00 til 10. okt. kl. 03:00. Norðan 18-23 m/s með talsverðri slyddu eða snjókomu, einkum norðantil. Talsverðar líkur á slydduísingu. Mikilvægt er að ganga vel frá utandyra og koma búfénaði í skjól. Miklar líkur á að færð spillist, einkum á fjallvegum. Ekkert ferðaveður.

Strandir og Norðurland vestra

  • 9. okt. kl. 10:00 til 10. okt. kl. 04:00. Norðan 18-25 m/s með mikilli úrkomu, slyddu við ströndina, annars snjókomu. Miklar líkur eru á slydduísingu á innviði og vegi. Fólki er bent á að ganga vel frá utandyra og koma búfénaði í skjól. Miklar líkur á að færð spillist og ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi.

Norðurland eystra

  • 9. okt. kl. 10:00 til 10. okt. kl. 10:00. Norðan 18-25 m/s með mikilli úrkomu, slyddu við ströndina, annars snjókomu. Miklar líkur eru á slydduísingu á innviði og vegi. Fólki er bent á að ganga vel frá utandyra og koma búfénaði í skjól. Miklar líkur á að færð spillist og ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi.

Austurland að Glettingi

  • 9. okt. kl. 14:00 til 10. okt. kl. 12:00. Norðvestan 15-25 m/s með mikilli rigningu eða slyddu, en snjókomu á fjallvegum. Miklar líkur eru á slydduísingu á innviði og vegi. Fólki er bent á að ganga vel frá utandyra og koma búfénaði í skjól. Miklar líkur á að færð spillist og ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi.
Gular viðvaranir taka gildi á norðanverðu landinu um helgina.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Suðaustan og austan 8-15 m/s og rigning eða skúrir, en sums staðar slydda norðaustanlands. Yfirleitt hægari vindur eftir hádegi. Hiti 1 til 9 stig, svalast norðaustantil.

Á sunnudag: Gengur í norðan og norðvestan 18-25 m/s með talsverðri eða mikilli slyddu eða snjókomu, en rigning á láglendi norðaustantil. Mun úrkomuminna sunnanlands. Hiti 0 til 7 stig, mildast austast.

Á mánudag: Minnkandi norðvestanátt og dregur úr ofankomu, en þurrt á Suður- og Vesturlandi. Hiti um og yfir frostmarki.

Á þriðjudag: Suðaustan- og austanátt og fer að rigna, en lengst af úrkomulítið á Norður- og Austurlandi. Hlýnar talsvert.

Á miðvikudag: Suðvestlæg eða breytileg átt og rigning eða skúrir. Hiti 3 til 8 stig.

Á fimmtudag: Norðaustlæg átt og þurrt að kalla, en dálítil slydduél fyrir norðan. Kólnar í veðri.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.