Íslenski boltinn

Sjáðu Danijel fylltan hetjumóð og glæsimark Telmo gegn FH

Sindri Sverrisson skrifar
Hinn 19 ára gamli Danijel Dejan Djuric hefur komið af fítonskrafti inn í lið Víkings.
Hinn 19 ára gamli Danijel Dejan Djuric hefur komið af fítonskrafti inn í lið Víkings. VÍSIR/VILHELM

Víkingar gerðu endanlega út um vonir Vals um Evrópusæti með mögnuðum 3-2 endurkomusigri í Bestu deild karla í fótbolta og FH er enn í fallsæti eftir 2-1 tap í Vestmannaeyjum. Mörkin úr leikjunum má nú sjá hér á Vísi.

Hinn 19 ára gamli Danijel Dejan Djuric var að öðrum ólöstuðum hetja Víkinga í gær en hann skoraði tvö lagleg mörk á síðustu tuttugu mínútum leiksins, eftir að Jesper Juelsgård og Birkir Heimisson höfðu komið Val í 2-0.

Danijel skoraði fyrst með föstu skoti úr frekar þröngu færi í teignum og Nikolaj Hansen jafnaði svo metin á 84. mínútu eftir fyrirgjöf Arnórs Borg Guðjohnsen. Tveimur mínútum síðar skoraði Danijel sigurmarkið eftir að hafa farið illa með Heiðar Ægisson, bakvörð Vals.

Víkingar eru þar með í 2. sæti, fyrir ofan KA á markatölu, en liðin eru átta stigum á eftir toppliði Breiðabliks. Nú er endanlega ljóst að þessi þrjú lið fara í Evrópukeppni á næstu leiktíð, þó að enn séu fjórar umferðir eftir.

Klippa: Mörk Víkings og Vals

ÍBV kom sér fjórum stigum frá fallsæti með 2-1 sigri gegn FH sem enn situr í næstneðsta sæti deildarinnar með 19 stig eftir 23 leiki. Liðið er stigi á eftir Leikni fyrir leik liðanna næsta sunnudag.

Telmo Castanheira kom ÍBV yfir í gær með frábæru skoti á áttundu mínútu en Ólafur Guðmundsson jafnaði metin með skalla eftir hornspyrnu.

Sigurmarkið skoraði svo miðvörðurinn Eiður Aron Sigurbjörnsson með föstu skoti úr teignum, á 56. mínútu.

Klippa: Mörk ÍBV og FH

Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 4.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.