Enski boltinn

Kane fyrstur til að skora hundrað mörk á útivelli

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þrátt fyrir að hafa bætt met í gær er ólóklegt að Kane hafi fagnað mikið inni í klefa að leik loknum.
Þrátt fyrir að hafa bætt met í gær er ólóklegt að Kane hafi fagnað mikið inni í klefa að leik loknum. Shaun Botterill/Getty Images

Harry Kane varð í gær fyrsti leikmaðurinn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar til að skora hundrað deildarmörk á útivelli. Hann skoraði eina mark Tottenham er liðið tapaði 3-1 gegn erkifjendum sínum í Arsenal.

Markið skoraði Kane á 31. mínútu leiksins af vítapunktinum eftir að Gabriel Magalhaes hafði brotið á Richarlison. Með markinu jafnaði Kane metin í 1-1, en það voru heimamenn í Arsenal sem voru mun sterkari aðilinn í leiknum og unnu að lokum sanngjarnan 3-1 sigur.

Eins og áður segir var þetta hundraðasta mark Kane á útivelli í ensku úrvalsdeildinni og er hann fyrsti leikmaðurinn í sögu hennar til að ná þeim áfanga.

Wayne Rooney skoraði á sínum ferli 94 mörk á útivelli og Alan Shearer, markahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi með 260 mörk, skoraði 87 af sínum mörkum á útivelli.

Þetta var ekki eina metið sem Kane bætti með marki sínu í gær. Hann hefur nú skorað 44 mörk í Lundúnaslögum og trónir þar með einn á toppnum yfir mörk skoruð í slíkum leikjum. Hann hefur nú skorað einu marki meira en Thierry Henry gerði í Lundúnaslögum á sínum ferli.

Þrátt fyrir þessi met fékk Tottenham engin stig út úr leiknum og Arsenal jók forskot sitt á toppnum. Arsenal trónir á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 21 stig eftir átta leiki, fjórum stigum meira en Tottenham sem situr í þriðja sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×