Íslenski boltinn

Chris Harrington: Ekkert verið rætt við mig um framhaldið

Hjörvar Ólafsson skrifar
Chris Harrington er ekki viss um hvort hann haldi áfram að þjálfa KR-liðið. 
Chris Harrington er ekki viss um hvort hann haldi áfram að þjálfa KR-liðið.  Vísir/Hulda Margrét

Christopher Thomas Harrington, þjálfari KR, var ósáttur við spilamennsku liðins þegar liðið fékk 5-0 skell gegn Þrótti í næstsíðustu umferð Bestu deildar kvenna í fóbolta í dag. 

„Við komum mjög flatar inn í þennan leik og frammistaðan í fyrri hálfleik var virkilega slök. Við vorum örlítið skárri í seinni hálfleik en heilt yfir var þetta ekki á pari við þann standard sem við höfum sett fyrir liðið,“ sagði Chris, þjálfari KR, svekktur.

„Við fengum reyndar þrjú mjög góð færi til þess að skora en nýttum þau ekki og það má eiginlega segja að það hafi verið saga okkar í sumar. Mér fannst ekkert vera að hugarfari leikmanna í þessum leik, við náðum bara ekki að spila nógu vel,“ sagði hann einnig.

KR var fyrir þennan leik fallið úr Bestu deildinni en tilkynnt hefur verið að Arnar Páll Garðarson muni ekki stýra liðinu áfram. Chris segir framtíðina óráðna hvað hann sjálfan varðar.

„Það hefur ekkert verið rætt við mig um framhaldið þannig að ég veit ekkert hvað verður eftir að þessu keppnistímabili lýkur á laugardaginn næsta,“ sagði Chris um stöðu sína hjá KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×