Veður

Ó­vissu- og hættu­stig al­manna­varna virkjuð vegna veðurs

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Mjög vondu veðri er spáð víða og er fólk beðið um að fylgjast vel með veðurspám.
Mjög vondu veðri er spáð víða og er fólk beðið um að fylgjast vel með veðurspám. Veðurstofan

Rauð viðvörun hefur verið gefin út fyrir Austfirði. Appelsínugul viðvörun vegna veðurs á Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi og Suðausturlandi. Gul viðvörun á við höfuðborgarsvæðið, Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir, Norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland að Glettingi og miðhálendi.

Samkvæmt horfum næsta sólarhringinn hjá Veðurstofunni verður vestan stormur víða á landinu í nótt en honum fylgi snarpar vindhviður. Það snúist í norðvestan 20 til 28 metra á sekúndu á morgun, sunnudag.

Hættulegar vindhviður verði á Suðausturlandi og Austurlandi. Búist sé við rigningu nærri sjávarmáli á Norður- og Austurlandi en slydda og snjókoma verði á á heiðum og til fjalla.

Slæmt eða ekkert ferðaveður sé þar sem viðvaranirnar eru í gildi og er fólk hvatt til að ganga frá lausamunum.

Rauð viðvörun hefur verið gefin út fyrir Austfirði en miklar líkur eru sagðar á foktjóni og grjótfoki. Norðvestan rok eða stormur sé væntanlegur  25 til 33 metrar á sekúndu en vindhviður geti farið yfir  45 metra á sekúndu. 

Nánari upplýsingar um veðurviðvaranir Veðurstofunnar má sjá hér

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hefur einnig sent frá sér tilkynningu vegna veðursins.

„Á morgun er suðaustanlands og á Austfjörðum spáð er slæmum stormi og áköfum sviptivindum, staðbundið allt að 50-60 m/s. Vegna þessa er hætt við að vegir geti lokast, m.a. hringvegurinn frá Kirkjubæjarklaustri og austur fyrir Djúpavog. Um tíma einnig hviðuveður í Mýrdal og undir Eyjafjöllum,“ skrifar Einar.

Almenningur er hvattur til þess að fara varlega og fylgjast vel með veðurspám og ástandi á vegum.

Fréttin hefur verið uppfærð með tilliti til rauðrar viðvörunar á Austfjörðum. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.