Erlent

Saka Rússa um að skjóta flug­skeyti að kjarn­orku­veri

Kjartan Kjartansson skrifar
Gervihnattamynd af Pivdennoukrainsk-kjarnorkuverinu í Mykolaiv-héraði í Úkraínu frá því í maí 2022.
Gervihnattamynd af Pivdennoukrainsk-kjarnorkuverinu í Mykolaiv-héraði í Úkraínu frá því í maí 2022. AP/Planet Labs PBC

Rússneskt flugskeyti er sagt hafa lent aðeins nokkur hundruð metra frá ofni Pivdennoukrainsk-kjarnorkuversins í sunnanverðri Úkraínu í dag. Kjarnaofnarnir hafi ekki skaddast en skemmdir hafi orðið á öðrum byggingum og búnaði.

Raforkufyrirtækið Energoatom sem rekur kjarnorkuverið, sem er það næststærsta í Úkraínu, segir að flugskeytið hafi lent um þrjú hundruð metra frá verinu, að sögn AP-fréttastofunnar. Á upptöku úr öryggismyndavélum sem úkraínska varnarmálaráðuneytið birti mátti sjá tvo eldhnetti í myrkrinu skömmu eftir miðnætti. 

Fyrirtækið og ráðuneytið sökuðu Rússa um „kjarnorkuhryðjuverkastarfsemi“. Krafturinn í sprengingunni hafi sprengt fleiri en hundrað rúður í gluggum og tímabundið stöðvað starfsemi vatnsaflsvirkjunar í grennd við kjarnorkuverið.

Hvorki rússnesk stjórnvöld né Alþjóðakjarnorkumálastofnunin hafa brugðist við ásökunum Úkraínumanna um árásina. Aðeins nokkrir dagar eru liðnir frá því að Vladímír Pútín Rússlandsforseti hótaði að beina vopnum sínum enn frekar að innviðum Úkraínu eftir niðurlægingu sem hersveitir hans hafa sætt á vígvellinum upp á síðkastið.

Ástsælasta söngkona Rússlands fordæmir hernaðinn

Sú niðurlæging virðist halda áfram. Úkraínuher segist nú hafa náð aftur á sitt vald austurbakka árinnar Oskil sem hefur verið framlína átakanna við rússneska hermenn í norðaustanverðu landinu. Úkraínumenn hafa nú náð nær öllu Kharkiv-héraði og segjast stefna á að frelsa Luhansk úr höndum innrásarhersins.

Pútín var greitt annað þungt högg um helgina þegar Alla Pugatsjeva, ein ástsælasta söngkona Rússlands til áratuga, gagnrýndi innrásina harðlega á samfélagsmiðlum. Kallaði hún markmið stjórnar Pútín í Úkraínu „tálsýn“ sem gerði Rússland að úrhrökum á alþjóðavettvangi og líf landsmanna afar erfitt, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Rússnesk stjórnvöld lýstu Maxim Galkin, eiginmann Pugatsjevu sem sjálfur er þekktur grínisti og söngvari, útsendara erlendra ríkja vegna andstöðu hans við hernaðinn á föstudag. Skoraði Pugatsjeva á stjórnvöld að gera slíkt við sama við hana. Kremlverjar hafa beitt merkimiðanum „útsendari erlends ríki“ á ýmis félagasamtök og fréttamiðla sem eru þeim erfiður ljár í þúfu í gegnum tíðina.


Tengdar fréttir

Rússar leyfi sér sið­leysi í stríðs­á­tökum

Gagnárás Úkraínumanna síðustu daga mun engin áhrif hafa á áætlanir Rússa, að sögn Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta. Sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum segir bakslags vera að vænta í gagnárásinni og að Rússar komist langt á siðleysi sem þeir leyfa sér í stríðsátökum.

Fundu fjölda­gröf með fjögur hundruð líkum í Izyum

Úkraínumenn hafa fundið merki um fjöldagröf í bænum Izyum í norðausturhluta landsins. Gröfina er að finna á landsvæði sem Úkraínumenn náðu nýverið aftur á sitt vald eftir innrás rússneska hersins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.