Umfjöllun og viðtöl: Keflavík-Þór/KA 1-3 | Þór/KA tók risaskref í átt að áframhaldandi veru í Bestu deildinni

Andri Már Eggertsson skrifar
ÞórKA
Vísir/Hulda Margrét

Þór/KA fór langt með að halda sér í deildinni með 1-3 sigri á Keflavík. Leikurinn fór rólega af stað en um leið og Þór/KA komst á bragðið fór boltinn að rúlla sem skilaði þremur mörkum. Keflavík minnkaði muninn í 1-3 en nær komust Keflvíkingar ekki og Þór/KA fékk mikilvæg þrjú stig í pokann. 

Fyrstu fjörutíu mínúturnar í fyrri hálfleik voru heldur tíðindalitlar. Bæði lið sköpuðu sér lítið sem ekkert af færum. Hættulegustu sóknirnar komu í gegnum föst leikatriði.

Snædís María Jörundsdóttir átti hættulegasta færi Keflavíkur á 11. mínútu. Dröfn átti góða fyrirgjöf á hausinn hennar Snædísar en þrátt fyrir að vera nálægt markinu var skallinn ansi kraftlaus og beint á Hörpu Jóhannesdóttur, markvörð Þór/KA.

Gestirnir fengu einnig tækifæri á að skora með kollspyrnu. Hulda Ósk Jónsdóttir tók hornspyrnu sem var hnitmiðuð inn í teiginn og þar náði Arna Eiríksdóttir hörkuskalla sem fór rétt framhjá markinu.

Eins og þruma úr heiðskíru kom Margrét Árnadóttir gestunum frá Akureyri yfir á 41. mínútu. Silvia Leonessi átti skelfilega sendingu til baka sem átti að fara á markmann en Margrét komst auðveldlega inn í hana og potaði boltanum framhjá Hörpu og skoraði í autt markið.

Rétt áður en flautað var til hálfleiks bætti Ísfold Marý Sigtryggsdóttir við öðru marki Þór/KA. Andrea Mist tók hornspyrnu á nærstöngina þar sem Sandra María gerði frábærlega í að skalla boltann út í teiginn og þar kom Ísfold á ferðinni og lúðraði boltanum í markið.

Eftir fjörutíu mínútur af engu voru gestirnir frá Akureyri tveimur mörkum yfir í hálfleik.

Hulda Ósk Jónsdóttir bætti við þriðja marki Þór/KA þegar aðeins þrjár mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Það var mikill barningur í teignum eftir hornspyrnu. Boltinn hrökk af varnarmanni Keflavíkur beint á Huldu sem skoraði af stuttu færi.

Heimakonur minnkuðu muninn á 67. mínútu. Tina Marolt tók hornspyrnu þar sem boltinn fór í slána og í mikilli traffík náði Caroline Mc Cue Van Slambrouck að skófla boltanum yfir línuna.

Fleiri uðu mörkin ekki og Þór/KA vann 1-3 sigur.

Af hverju vann Þór/KA

Eftir fjörutíu mínútur af engu komst Þór/KA á bragðið eftir klaufaleg mistök heimakvenna sem endaði með marki. Fyrsta markið kveikti heldur betur á norðan konum þar sem Þór/KA skoraði annað mark undir lok fyrri hálfleiks og þriðja markið í byrjun seinni hálfleiks.

Hverjar stóðu upp úr?

Annað mark Þórs/KA var í dýrari kantinum. Sandra María Jessen var nánast alveg upp að endalínu nálægt nærstönginni þar skallaði hún boltann út í teiginn þar sem Ísfold Marý mætti á ferðinni og dúndraði boltanum í markið.

Þór/KA nýtti föstu leikatriðin vel og komu tvö af þremur mörkum Þórs/KA upp úr hornspyrnu. 

Hvað gekk illa?

Silvia Leonessi, leikmaður Keflavíkur, gaf Þór/KA fyrsta markið þegar hún átti ömurlega sendingu á markmann sem Margrét Árnadóttir komst inn í og skoraði. Þór/KA fylgdi þessu eftir með tveimur mörkum og þá var leikurinn gott sem búinn.

Hvað gerist næst?

Þór/KA fær Stjörnuna í heimsókn næsta sunnudag klukkan 14:00. Á sama tíma fer Keflavík til Vestmannaeyja og mætir ÍBV.

Gunnar: Það kraumar inni í mér 

Gunnar Magnús var svekktur eftir leikvísir/vilhelm

Gunnar Magnús Jónsson, þjálfari Keflavíkur, var hundfúll með sitt lið eftir leik.

„Það kraumar inni í mér. Við lögðum mikla áherslu á að mæta rétt inn í leikinn. Í síðasta leik var mikil vinnusemi og dugnaður en ekki í dag. Það er einhver grýla þegar við fáum lið í kringum okkur á okkar heimavöll. Við höfum tapað fyrir Aftureldingu, KR og Þór/KA með fullri virðingu fyrir þeim liðum,“ sagði Gunnar og hélt áfram.

„Á mikilvægu augnabliki gáfum við þeim ódýrt mark. Það var ekkert að gerast í leiknum áður en við gáfum þeim mark og það var algjört kjaftshögg að fá svona mark á sig.“

Gunnar var svekktur með að hafa fengið á sig tvö mörk eftir hornspyrnu sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir.

„Það var súrt að fá á sig tvö mörk upp úr hornspyrnu en mér fannst við klára leikinn ágætlega svo ég hrósi mínu liði,“ sagði Gunnar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira