Sport

„Keflavík ákvað að vorkenna okkur og gefa okkur mark“

Andri Már Eggertsson skrifar
Perry Mclachlan og Jón Stefán Jónsson, þjálfarar Þór/KA fóru til Keflavíkur og sóttu sigur
Perry Mclachlan og Jón Stefán Jónsson, þjálfarar Þór/KA fóru til Keflavíkur og sóttu sigur Mynd/Þór/KA

Þór/KA vann Keflavík nokkuð sannfærandi 1-3 og tók risaskref í átt að áframhaldandi veru í Bestu deildinni. Jón Stefán Jónsson, þjálfari Þór/KA, var í skýjunum eftir leik.

„Eftir tíðindalitlar fjörutíu mínútur ákvað Keflavík að vorkenna okkur aðeins og gefa okkur fyrsta markið sem var vel þegið og mér fannst við tvíeflast við fyrsta markið,“ sagði Jón Stefán í samtali við Vísi eftir leik.

Jón var ánægður með hvernig Þór/KA gekk á lagið eftir fyrsta markið sem skilaði tveimur mörkum til viðbótar.

„Ég var ógeðslega sáttur með hvernig við héldum áfram eftir fyrsta markið. Við höfum farið flatt á því áður í sumar að vera þremur mörkum yfir. Við töluðum um að róa leikinn og taka litlar áhættu sem við gerðum frábærlega í dag.“

Jón var ánægður með hvernig liðið spilaði þremur mörkum yfir og fannst honum Þór/KA hafa lært af fyrri reynslu.

„Það var ánægjulegt fyrir okkur öll að við höfum lært af því að vera ekki að glutra niður þriggja marka forystu. Maður veit ekki hvað hefði gerst í þessum leik hefðum við ekki lent í því mótlæti. 

Þór/KA tók risaskref í að halda sér uppi í deildinni og var Jóni létt þegar stigin þrjú voru tryggð í Keflavík.

„Ég sagði að það hafi verið létt 800 kílóum af mér í viðtali um daginn og núna fóru 300 kíló af mér í viðbót og mér líður mjög vel en við erum ekki hætt það eru tveir leikir eftir,“ sagði Jón Stefán að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×