Innlent

Segir of­fitu­að­gerðir geta komið í veg fyrir sjúk­dóma eins og krabba­mein

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Aðalsteinn Arnarson skurðlæknir á Klíníkinni segir margvíslega ástæðu fyrir þessari sprengingu í efnaskiptaaðgerðum. Hann segir úrelt að segja við fólk sem glímir við offitu að það eigi bara að borða minna og hreyfa sig meira. Fleira þurfi að koma til. 
Aðalsteinn Arnarson skurðlæknir á Klíníkinni segir margvíslega ástæðu fyrir þessari sprengingu í efnaskiptaaðgerðum. Hann segir úrelt að segja við fólk sem glímir við offitu að það eigi bara að borða minna og hreyfa sig meira. Fleira þurfi að koma til.  Vísir

Gríðarleg fjölgun hefur orðið á magaerma-og hjáveituaðgerðum hér á landi síðustu tvö ár. Langflestar eru framkvæmdar á einkastofu. Kviðarholssskurðlæknir á Klíníkinni segir slíkar aðgerðir geta komið í veg fyrir alvarlega sjúkdóma eins og krabbamein. Úrelt sé að segja of feitu fólki að borða minna og hreyfa sig meira.

Talið er að einn af hverjum þremur Íslendingum sé of þungur og hluti þeirra gími við offitu.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin skilgreinir offitu þegar líkamsþyngdarstuðul eða BMI er yfir 30 og alvarlega offitu þegar BMI er 35 eða hærra.

Fréttastofa óskaði eftir upplýsingum frá Landlæknisembættinu um hversu margir séu skilgreindir með offitu hér á landi og var tjáð að ekki væri hægt að veita slíkar upplýsingar. Þá óskaði fréttastofa viðbragða stofnunarinnar við því að svo margar aðgerðir væru gerðar hér á landi og var sagt að ekki væri hægt að verða við beiðninni á þeim tímapunkti.

Á Heilsugæslunni kom fram að til eru slíkar tölur um grunnskólabörn.  Á síðast ári  voru 18% þeirra skilgreind í ofþyngd og 7% með offitu. 

Gríðarleg fjölgun aðgerða

Samkvæmt upplýsingum hjá Klíníkinni einkarekinni læknamiðstöð voru um 20% Íslendinga með BMI yfir 30 árið 2007. Áætla megi að um fimmtungur þeirra sé með BMI yfir 35 eða um 12.000 manns en það hefur verið skilgreind alvarleg offita.

Búast má við að vandinn hafi aukist síðan árið 2007. Ef  litið til svokallaðra offituaðgerða eins og magaerma-og hjáveituaðgerða þá hefur þeim fjölgað gríðarlega.  Hátt í tvöþúsund aðgerðir hafa til að mynda verið gerðar á Klíníkinni síðustu tvö ár en þær voru 240 á sömu stofu árið 2019. Í dag kostar um tólf hundruð þúsund krónur að fara í slíka aðgerð þar. Landspítalinn hefur gert um sextíu til níutíu aðgerðir á en þær eru nánast ókeypis þar.Ekki er vitað hversu margir fara til útlanda í slíkar aðgerðir en búast má við að það sé talsverður fjöldi.

Aðalsteinn Arnarson skurðlæknir á Klíníkinni segir margvíslega ástæðu fyrir þessari sprengingu.  

„Þetta hefur verið svolítið uppsafnaður vandi svo margir hafa verið að fara í aðgerðirnar síðustu ár. Þær eru betri en áður. Þá er þessi vandi mikill hér, við  getum í raun borið okkur saman við Bandaríkin og Bretland sem tróna yfirleitt á toppnum í svona tölfræði,“ segir Aðalsteinn.

Aðalsteinn segir að fólk þurfi uppfylla ákveðin skilyrði til að komast í slíka aðgerð á Klíníkinni.

„Almenna viðmiðið sem við notum og er notað á flestum stöðum er þyngdarstuðull BMI upp á 35 til 40. Ef síðan koma þarna sjúkdómar eins og sykursýki eða kæfisvefn eða aðrar ástæður þá er ábending í aðgerð sterkari.  Þar getum við leyft okkur að fara undir þessa tölu þar sem rannsóknir sýna að aðgerðirnar gera gagn undir BMI uppá 27, sérstaklega ef um er að ræða sykursýki,“ segir hann

Úrelt að segja fólki í offitu að borða bara minna

Hann segir úrelt að segja fólki í mikilli yfirþyngd að það eigi bara að borða minna.

„Þetta hugarfar að segja við sjúklinginn að þú verður bara að borða minna og hreyfa þig meira er gamaldags sjónarmið. Í dag vitum við að þetta erum ýmis undirliggjandi sjónarmið sem valda offitu eins og t.d. hormónabreytingar og boðskipti milli meltingarvegar og heila,“ segir hann. 

Samtök um líkamsvirðingu hafa gagnrýnt slíkar aðgerðir þær séu ekki hættulausar. 

Aðalsteinn segir það rétt að eins og í öllum aðgerðum sem fela í sér inngrip geti fylgikvillar komið fram.  Hættulegast sé ef komi leki í maga eftir aðgerð en það sé afar sjaldgæft. Slíkt gerist í einni af hverri fimm hundruð aðgerðum. Það sé fimm prósent meiri hætta á garnaflækjum sem geti haft talsvert alvarlegar afleiðingar. Algengt sé að fólk skorti vítamín og steinefni, járn og kalk. Það sé því t.d.  hætta á beinþynningu ef fólk taki ekki auka skammt bætiefna eftir aðgerð.  Bakflæði sé algengara og aukin hætta á alkahólisma.

„Þú þarf minna áfengi, áhrifin eru hraðari og það brotnar ekki eins hratt niður og svo er talað um yfirfærslu á einni fíkn yfir í aðra þ.e. það getur verið hætta á að það gerist,“ segir hann. 

Getur komið í veg fyrir krabbamein

Hann segir að Klíníkin stefni nú á að bjóða líka upp á sálfræði-eða geðlæknaaðstoð samfara slíkum aðgerðum því oft sé offita flókinn vandi. Aðalsteinn segir hins vegar að ávinningur aðgerðanna sé gríðarlega mikill fyrir langflesta og hún geti komið í veg fyrir alvaralega sjúkdóma eins og sykursýki og kæfisvefn.

„Ofþyngd hefur mjög neikvæð áhrif á nokkrar tegundir krabbameina.  Þannig er tíðni krabbameina í brjósti alltaf tvöföld hjá konum í yfirþyngd samanborið við konur í kjörþyngd. Þannig að það er mikill ávinningur af því að vera í kjörþyngd eða komast þangað,“ segir Aðalsteinn.

Þá nái langflestir miklum árangri.

„Þegar einstaklingur er komin í mikla ofþyngd þá eru í dag mjög fá ráð önnur en þessar aðgerðir sem hafa langvarandi áhrif,“ segir hann.

Hann segir að á næstu tíu til tuttugu árum megi búast við að lyf verði komin á markað sem geti haft svipuð áhrif og þessar aðgerðir . Þá sé veri að skoða nýja einfalda tækni fyrir þá sem eru í mikilli yfirþyngd en ná ekki viðmiði í svona aðgerðir.

„Þar má nefna magablöðrur sem eru settar í magann og þrengja þannig að. Þær fara svo eftir nokkra mánuði. Það er verið að prófa þetta erlendis og við fylgjumst með. Þá þarf fólk á sama tíma að gera bragabót á hreyfingu og fæði á sama tíma. Mér sýnist að aðgerðir eins og þessar séu að skila þó nokkuð góðum árangri fyrir þá sem vilja missa svona 15% af líkamsþyngd,“ segir Aðalsteinn að lokum.  


Tengdar fréttir

Mikil eftirspurn eftir magaaðgerðum vegna offitu

Eftirspurn eftir aðgerðum vegna offitu hefur aukist hér á landi. Á fyrstu níu mánuðum ársins voru gerðar hátt í fimm hundruð skurðaðgerðir á maga vegna offitu en langflestar voru gerðar á einkastofum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.