Enski boltinn

Arteta segir að dómarinn hafi viðurkennt að brotið hafi verið lítið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paul Tierney gónir á skjáinn. Skömmu síðar dæmdi hann mark Gabriels Martinelli af.
Paul Tierney gónir á skjáinn. Skömmu síðar dæmdi hann mark Gabriels Martinelli af. getty/Robbie Jay Barratt

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að Paul Tierney, dómari leiksins gegn Manchester United í ensku úrvalsdeildinni, hafi viðurkennt að það hafi verið ströng ákvörðun að dæma mark Gabriels Martinelli af. Arsenal tapaði leiknum, 3-1.

Martinelli kom Arsenal yfir eftir skyndisókn í fyrri hálfleik. Markið var hins vegar dæmt af eftir að það hafði verið skoðað á myndbandi því Martin Ödegaard þótti hafa brotið á Christian Eriksen. Bæði Ödegaard og Arteta lýstu yfir óánægju sinni með ákvörðunina eftir leikinn.

„Að mínu mati var þetta aldrei brot. Þetta var lítil snerting og til að VAR komi að borðinu þarf þetta að vera augljóst. Þetta var mjög, mjög lítið. Þetta lítur eflaust verr út á myndbandi en þetta var aldrei brot og dómarinn lét leikinn halda áfram,“ sagði Ödegaard.

Að sögn Artetas viðurkenndi Tierney að það ákvörðunin að dæma markið af hafi orkað tvímælis.

„Dómarinn sagði að þetta hafi verið ströng ákvörðun. Eina sem við biðjum um er samræmi. Í dag [í gær] var aftur dæmt mark af okkur en því miður er ekkert sem við getum gert í því núna,“ sagði Arteta.

Tapið í gær var það fyrsta hjá Arsenal á tímabilinu. Liðið er samt enn á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með fimmtán stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×