Enski boltinn

Leeds og Everton skiptu stigunum á milli sín

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Það var stál í stál á Elland Road í kvöld.
Það var stál í stál á Elland Road í kvöld. Michael Regan/Getty Images

Leeds United og Everton skiptu stigunum á milli sín er liðin gerðu 1-1 jafntefli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Anthony Gordon kom Everton í forystu þegar hann batt endahnútinn á góða skyndisókn gestanna á 17. mínútu leiksins, en það var Alex Iwobi sem lagði upp markið fyrir hinn 21 árs Gordon.

Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki í fyrri hálfleik og staðan var því 0-1 þegar gengið var til búningsherbergja, gestunum í Everton í vil.

Heimamenn jöfnuðu þó metin á 55. mínútu þegar Luis Sinisterra kom boltanum framhjá Jordan Pickford í marki Everton með góðu skoti og staðan því orðin 1-1.

Það reyndust svo lokatölur leiksins og liðin tóku því sitt stigið hvort með sér heim. Leeds situr nú í fimmta sæti deildarinnar með átta stig eftir fimm leiki, fimm stigum meira en Everton sem situr í 15. sæti og er enn í leit að sínum fyrsta sigri á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×