Erlent

Teymi Al­þjóða­kjarn­orku­mála­stofnunarinnar loks á leið til Za­poriz­hzhia

Atli Ísleifsson skrifar
Rússar náðu kjarnorkuverinu í Zaporizhzhia á sitt vald í mars, en harðir bardagar hafa staðið í grennd við verið síðustu vikurnar.
Rússar náðu kjarnorkuverinu í Zaporizhzhia á sitt vald í mars, en harðir bardagar hafa staðið í grennd við verið síðustu vikurnar. AP

Eftirlitsmenn á vegum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) eru nú á leið til úkraínska kjarnorkuversins í Zaporizhzhia þar sem harðir bardagar hafa staðið milli úkraínskra og rússneskra hersveita síðustu vikurnar.

Rafael Grossi, forstjóri IAEA, fylgir teyminu sem ferðast nú til versins. Í tísti segir Grossi að dagurinn sé runninn upp – teymi á vegum stofnunarinnar sé nú á leiðinni, en búist er við að það geti hafið sín störf síðar í vikunni. Segir hann nauðsynlegt að tryggja öryggi þessa stærsta kjarnorkuvers Evrópu.

Kjarnorkuverið er að finna í suðausturhluta Úkraínu, en margir hafa óttast að kjarnorkuslys kunni að verða í verinu sem hefur verið á valdi Rússa síðan í mars.

Harðir bardagar hafa staðið í grennd við verið síðustu vikurnar og sagði Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti í síðustu viku að litlu hafi mátt muna að kjarnorkuslys hafi orðið þegar síðasta rafmagnslínan að verinu hafi dottið út í átökum, en nokkrar klukkustundir tók að gera við línuna. Selenskí sagði að varaaflstöðvar hafi haldið verinu gangandi og bjargað því að stórslys hafi ekki orðið.

Í síðustu viku varð ljóst að bæði Úkraínumenn og Rússar væru samþykkir að hleypa fulltrúum IAEA að verinu.

Teymi Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar er ætlað að meta mögulegar skemmdir sem hafi orðið á kjarnorkuverinu, leggja mat á öryggiskerfi versins, meta aðstæður starfsfólks og sjá til þess að gripið verði til nauðsynlegra aðgerða til að hægt sé að tryggja öryggi.


Tengdar fréttir

Selenskí segir varaaflstöðvar hafa forðað kjarnorkuslysi

Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti segir að litlu hafi mátt muni að kjarnorkuslys yrði þegar síðasta rafmagnslínan að Zaporizhzhia kjarnorkuverinu datt út í átökum í kringum verið. Nokkrar klukkustundir tók að gera við línuna.

Sameinuðu þjóðirnar uggandi eftir ítrekaðar árásir á kjarnorkuver

Rússar og Úkraínumenn benda enn hvorir á aðra vegna ítrekaðra árása á stærsta kjarnorkuver Evrópu í austurhluta Úkraínu. Árásir þessar hafa aukið á áhyggjur manna af því árásirnar leiði til stórslyss í kjarnorkuverinu sem hafi óafturkræfar afleiðingar í för með sér. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna kallar eftir því að svæðið í kringum kjarnorkuverið verði hlutlaust.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×