Enski boltinn

Aron Elís hafði betur gegn Stefáni Teit

Atli Arason skrifar
Aron Elís Þrándarson, leikmaður OB.
Aron Elís Þrándarson, leikmaður OB. Getty Images

Miðað við fjölda Íslendinga í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í ár þá verða Íslendingaslagir nánast hverja helgi þetta tímabilið. Aron Elís Þrándarson og liðsfélagar hans í OB unnu rétt í þessu 1-2 útisigur á Stefáni Teit Þórðarsyni og Silkeborg í uppgjör Íslendingaliða í dönsku úrvalsdeildinni þessa helgina.

Aron Elís var í byrjunarliði OB og lék allan leikinn á meðan Stefán Teitur byrjaði á varamannabekk Silkeborg en kom inn á leikvöllinn á 62. mínútu.

Sebastian Jorgensen kom Silkeborg í forystu á 22. mínútu áður en Bashkim Kadrii jafnaði leikinn á 43. mínútu. Sigurmark leiksins kom seint í leiknum eða á 94. mínútu þegar Mads Frokjaer skoraði úr vítaspyrnu.

Odense vinnur þar með sinn annan leik í röð sem færir liðið úr botnsætinu og upp í 8. sætið. Silkeborg var í toppsæti deildarinnar fyrir þessa umferð en hefur nú fallið niður í þriðja sæti. Silkeborg er með 13 stig, þremur stigum minna en topplið Nordsjælland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×