Erlent

Söngvari Ar­ca­de Fire sakaður um kyn­ferðis­brot

Bjarki Sigurðsson skrifar
Arcade Fire hélt tónleika hér á landi árið 2018.
Arcade Fire hélt tónleika hér á landi árið 2018. Getty/Josh Brasted

Fjórir einstaklingar hafa sakað Win Butler, söngvara kanadísku hljómsveitarinnar Arcade Fire, um að hafa brotið á sér kynferðislega. Atvikin áttu sér stað á árunum 2015 til 2020 en Butler hefur verið í hjónabandi með Régine Chassagne, meðlim Arcade Fire, síðan árið 2003.

Einstaklingarnir fjórir stigu fram í samtali við fréttamiðilinn Pitchfork í dag en þrjár konur saka Butler um að hafa nýtt sér frægð sína og aldur til þess að sofa hjá sér.

Butler hefur viðurkennt að hann hafi sofið hjá konunum en neitar að eitthvað glæpsamlegt hafi átt sér stað. Kynlíf þeirra hafi verið með samþykki beggja aðila. Allar konurnar eru mun yngri en Butler og miklir aðdáendur Arcade Fire.

Fjórði einstaklingurinn sakar Butler um að hafa nauðgað sér tvisvar sinnum, einu sinni þegar þau voru saman í bíl og einu sinni þegar Butler mætti í íbúð einstaklingsins eftir að hán var búið að banna honum að koma þangað. Blaðamaður Pitchfork segist hafa skoðað samskipti milli einstaklinganna og Butler og gat þar með staðfest sögur þeirra.

Í yfirlýsingu sem Butler sendi Pitchfork eftir að miðillinn setti sig í samband við hann vegna málsins staðfestir hann að hafa hitt einstaklingana og sofið hjá þeim öllum. Hann elski þó eiginkonu sína enn og segir framhjáhaldið hafa verið mistök.

„Ég hef aldrei snert konu gegn hennar vilja og ef einhver gefur annað í skyn er það rangt. Ég neita því staðfastlega að ég hafi nauðgað konu eða heimtað kynferðislega greiða. Það er ótvírætt að það hefur aldrei gerst,“ segir í yfirlýsingu söngvarans.

Arcade Fire hélt tónleika hér á landi árið 2018 í Laugardalshöll. Tónleikarnir voru með þeim síðustu í Evróputúr sveitarinnar eftir að hafa gefið út plötuna Everything Now árið áður.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×