Þessi gögn tók hann með sér til Flórída og kom fyrir í Mar-a-Lago, sveitaklúbbi sínum þar sem hann býr. Blaðsíðurnar sjö hundruð voru meðal gagna sem Trump sendi til Þjóðskjalasafnsins síðastliðinn janúar en þetta kemur fram í bréfi sem forsvarsmenn Þjóðskjalasafns Bandaríkjanna sendu Trump í maí. Bréfið var opinberað í gærkvöldi af bandamanni Trumps.
Gögnin sem nefnd eru í bréfinu eru ekki meðal þeirra sem starfsmenn FBI lögðu hald á er þeir gerðu húsleit í Mar-a-Lago fyrr í ágúst. Fjölmiðlar vestanhafs segja að meðal þeirra gagna sem voru haldlögð hafi verið nokkuð magn leynilegra skjala.
Sjá einnig: Leitarheimildin byggði á grun um brot á njósnalögum
Eftir að Trump afhenti um fimmtán kassa af gögnum til Þjóðskjalasafnsins grunaði starfsmenn þess að enn fleiri gögn, og þar á meðal leynilegar upplýsingar, mætti finna í Mar-a-Lago. Þá hófust viðræður milli safnsins og lögmanna Trumps um hvernig hægt væri að nálgast þessi gögn.

Samkvæmt frétt Politico sýnir bréfið fram á að auk þess að Trump hafi geymt leynileg gögn í Mar-a-Lago hafi lögmenn hans reynt fyrr á árinu að láta reyna á það hvort gögnin gætu fallið undir trúnað sem fylgir forsetaembættinu, sem á ensku kallast „executive privilege“. Því var hafnað af bæði Hvíta húsinu og Þjóðskjalasafninu.
Þrátt fyrir það lögðu lögmenn Trumps fram kröfu í gær þar sem þeir fóru fram á að utanaðkomandi aðili væri fenginn til að fara yfir gögnin og kanna hvort hluti þeirra gæti fallið undir þennan trúnað.
Sjá einnig: Trump vill að þriðji aðili fari yfir gögnin úr húsleitinni
Sá sem birti bréfið heitir John Solomon og hélt hann því fram að það bendlaði Joe Biden, núverandi forseta, við deilurnar um gögnin og húsleitina í Mar-a-Lago. Bréfið gerir það ekki en í því segir Debra Steidel Wall yfirmaður Þjóðskjalasafnsins að Biden hafi verið sammála henni og öðrum um að Trump gæti ekki krafist þess að gögnin nytu þess trúnaðar sem gjarnan fylgir forsetaembættinu.
Gæti aukið á vandræði Trumps
Í frétt New York Times segir að bréfið gæti aukið á vandræði Trumps. Það sanni að hann hafi geymt háleynilegar upplýsingar í Mar-a-Lago og að Trump og lögmenn hans hafi dregið fæturna í að afhenda gögn til Þjóðskjalasafnsins.
Það gæti verið notað til að sýna fram á að Trump hafi reynt að hindra rannsókn á meðhöndlun hans á leynilegum gögnum.