Erlent

Tangarhald Trumps á flokknum aldrei þéttara

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, fyrrverandi forseti, er með tangarhald á Repúblikanaflokknum og flestum opinberum andstæðingum hans hefur verið bolað þaðan út.
Donald Trump, fyrrverandi forseti, er með tangarhald á Repúblikanaflokknum og flestum opinberum andstæðingum hans hefur verið bolað þaðan út. AP/Yuki Iwamura

Ef það er einn lærdómur sem draga má af úrslitum í forvali Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum á undanförnum dögum, er það að Donald Trump ræður þar ríkjum. Honum er að takast að bola öllum helstu andstæðingum úr flokknum. Frambjóðendur flokksins til áhrifamikilla embætta víðs vegar um Bandaríkin hafa tekið undir lygar Trumps um að kosningasvindl hafi kostað hann sigur í forsetakosningunum 2020.

Þá hafa margir forsvarsmenn flokksins og háttsettir þingmenn, tekið undir árásir hans á Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) eftir að starfsmenn stofnunarinnar gerðu húsleit á setri Trump í Mar-A-Lago í Flórída og lögðu þar hald á gögn. Þar á meðal leynileg gögn.

Sjá einnig: Leitarheimildin byggði á grun um brot á njósnalögum

Af þeim tíu fulltrúadeildarþingmönnum Repúblikanaflokksins sem greiddu atkvæði með því að ákæra Trump fyrir embættisbrot í fyrra, vegna árásarinnar á þinghúsið þann 6. janúar, eru einungis tveir sem eiga séns á að halda þingsætum sínum á næsta ári, samkvæmt frétt Washington Post.

Fjórum hefur verið hafnað í forvali. Fjórir ákváðu að bjóða sig ekki aftur fram.

Á meðal þeirra sem Trump hefur náð að hefna sín á er fulltrúadeildarþingmaðurinn Liz Cheney, einn harðasti andstæðingur Trump innan flokksins.

AP fréttaveitan segir að gangi ætlanir Repúblikanaflokksins um að ná tökum á báðum deildum Bandaríkjaþings í kosningunum í haust eftir, verði hið nýja þing byggt í ímynd Trumps, ef svo má segja. Áhrif hans þar verði gífurleg.

Óttast óreynda og umdeilda frambjóðendur

Ýmsir sérfræðingar innan Repúblikanaflokksins hafa þó áhyggjur af því að þeir kjósendur sem njóta stuðnings Trumps, og þeirra kjósenda Repúblikanaflokksins sem taka þátt í forvali, séu margir hverjir ólíklegir til að hljóta náð almennra kjósenda. Margir þeirra séu bæði óreyndir og umdeildir.

Það gæti komið niður á áætlun flokksins og þá sérstaklega varðandi öldungadeildina þar sem kjördæmalínur hafa ekki verið teiknaðar af ríkisþingmönnum Bandaríkjanna.

Sjá einnig: Fleiri Repúblikanar ósáttir við Trump

„Trump er með tangarhald á kjósendum Repúblikanaflokksins og ef hann vill verða forsetaframbjóðandi flokksins 2024, þá verður hann það,“ sagði John Thomas, sem starfar innan Repúblikanaflokksins við WP. Hann kom að undirbúningi fyrir mögulegt forsetaframboð Ron DeSantis, ríkisstjórna Flórída, en hætti því nýverið.

Það var eftir húsleitina í Mar-A-Lago. Hún er talin hafa aukið líkurnar á framboði Trump til forseta til muna.  Húsleitin hafi kveikt neista hjá hans helstu stuðningsmönnum með því að ýta undir tilfinningar þeirra varðandi það að þau ásamt Trump standi saman gegn „kerfinu“.

Til marks um það segja heimildarmenn fjölmiðla vestanhafs að fjárveitingar til kosningasjóða Trumps hafi náð nýjum hæðum í kjölfar húsleitarinnar.

Þá er Trump einnig talinn líklegur til að vilja verða forseti aftur og þannig verja sig gegn þeim fjölmörgu dómsmálum og rannsóknum sem að honum snúa þessa dagana.

Ekki öll von út fyrir Demókrata

Þó kannanir bendi til þess að staðan sé nokkuð góð fyrir Repúblikana í aðdraganda þingkosninganna í haust er ekki öll von úti fyrir Demókrataflokkinn. Demókratar binda miklar vonir við aukna kjörsókn og aukna reiði almennings í kjölfar þess að Hæstiréttur Bandaríkjanna, þar sem dómarar skipaðir af forsetum Repúblikanaflokksins eru í meirihluta, felldi úr gildi rétt bandarískra kvenna til þungunarrofs.

Repúblikanar á ríkisþingum víða um Bandaríkin samþykktu eftir það ströng lög um þungunarrof og meinuðu aðgerðirnar jafnvel alfarið. Kannanir hafa lengi sýnt að slík lög eru ekki vinsæl hjá meirihluta kjósenda Bandaríkjanna og jafnvel ekki hjá almennum kjósendum Repúblikanaflokksins heldur.

Kjósendur í Kansas greiddu svo í upphafi ágústmánaðar atkvæði um það hvort fjarlægja ætti ákvæði sem tryggir konum rétt til þungunarrofs úr stjórnarskrá ríkisins. Kjósendur sem hallast í átt að Demókrataflokknum fjölmenntu á kjörstaði og hin afgerandi niðurstaða kom svo gott sem öllum á óvart.

Niðurstaða kosningarinnar var sú að tillagan var felld með tuttugu prósentustiga mun.

Ósammála um þungunarrof

AP fréttaveitan segir Repúblikana nokkuð ósammála um hvernig lög eigi að semja um þungunarrof. Nokkuð sé um deilur innan flokksins og niðurstaðan í Kansas hafi gert Repúblikana stressaða fyrir komandi kosningum í nóvember.

Könnun sem framkvæmd var fyrir fréttaveituna í júlí sýndi að einungis sextán prósent kjósenda Repúblikanaflokksins vildu að þungunarrof yrði með öllu ólöglegt.

61 prósent kjósenda Repúblikanaflokksins sagði að leyfa ætti þungunarrof ef barnið myndi fæðast með lífshættulegan sjúkdóm. 77 prósent sögðu að þungunarrof ætti að vera löglegt í tilfellum nauðgunar og sifjaspella. 85 prósent sögðu að þungunarrof ætti að vera löglegt í tilfellum þar sem meðganga ógnar heilsu móður.

Þá sögðust 56 prósent kjósenda Repúblikanaflokksins að heilt yfir ætti að leyfa þungunarrof fyrir sex vikna meðgöngu. Íhaldssömustu kjósendur flokksins, sem eru einnig líklegastir til að taka þátt í forvali, vilja alfarið banna þungunarrof, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Vísbendingar um aukna kjörsókn

Demókratar vilja einbeita sér að velgengni þeirra í að koma frumvörpum í gegnum þingið á undanförnum vikum og aðgerðum Repúblikana varðandi þungunarrof. AP segir sífellt fleiri auglýsingar frambjóðenda Demókrataflokksins taka mið af því.

Stuðningshópar Demókrataflokksins hafa lagt tíu milljónir dala til hliðar fyrir sjónvarpsauglýsingar sem sýna á um landið allt á næstu vikum og mánuðum. Markmiðið er að básúna velgengni Demókrata og þeim árangri sem náðst hefur á undanförnum tveimur árum.

Sérstaklega verður talað um nýtt umhverfisfrumvarp Demókrata og hvaða jákvæðu áhrif það muni hafa fyrir kjósendur.

Repúblikanar binda hins vegar vonir við að verðbólga og áhyggjur fólks af glæpum muni hafa meiri áhrif en meint velgengni Demókrata og áhyggjur kjósenda af réttindum kvenna til þungunarrofs.

Politico segir að þegar sjáist vísbendingar um að kjörsókn meðal kjósenda Demókrataflokksins gæti orðið há í kosningunum í nóvember. Það sjáist á forvali í Washington-ríki í þessum mánuði þar sem útlitið sé betra fyrir Demókrata.

Samanborið við þingkosningar á árum þar sem Demókratar hafa misst meirihluta í þinginu, bendi tölfræðin frá Washington til þess að kjörsókn sé meiri meðal kjósenda flokksins en gengur og gerist. Þessi tölfræði hafi áður reynst trúverðugur mælikvarði á kjörsókn.


Tengdar fréttir

Trump-liðar kvarta undan „vopnvæðingu“ dómsmálaráðuneytisins

Rannsakendur Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) gerðu í gær húsleit í Mar-a-Lago sveitaklúbbinum í Flórída en Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, býr þar. Fjölmiðlar vestanhafs segja útlit fyrir að atlagan, sem stóð yfir frá morgni til kvölds í gær, tengist meðhöndlun Trumps og starfsmanna hans á opinberum og leynilegum gögnum.

Biden búinn að losna við Covid, aftur

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur nú aftur losað sig við kórónuveiruna. Forsetinn greindist með veiruna um síðustu helgi en hann mun þó halda áfram í einangrun þar til prófið er staðfest.

Hægri­sinnaðir fá sitt eigið stefnu­móta­for­rit

Hægrisinnaðir Bandaríkjamenn geta í september skráð sig á stefnumótaforrit sem er einungis fyrir hægrisinnaða einstaklinga en forritið heitir, „The Right Stuff.“ Hægrisinnaði milljarðamæringurinn Peter Thiel fjárfesti í forritinu fyrir eina og hálfa milljón dollara en Thiel er sjálfur samkynhneigður.

Giuliani með stöðu grunaðs manns

Rudolph W. Giuliani, fyrrverandi lögmaður Donalds Trump og fyrrverandi borgarstjóri New York, hefur verið tilkynnt að hann hafi stöðu grunaðs manns í rannsókn yfirvalda í Georgíu á afskiptum Trumps og bandamanna hans af forsetakosningunum árið 2020.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.