Umfjöllun og viðtöl: Fram-Breiða­blik 0-2| Blikar fyrstir til að vinna Framara í Úlfarsárdal

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Breiðablik mætir í Úlfarsárdal.
Breiðablik mætir í Úlfarsárdal. Vísir/Hulda Margrét

Fram tók á móti Breiðabliki í 18. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld. Fram hafði ekki tapað leik á nýjum heimavelli sínum í Úlfarsárdal. Breiðabliki, topplið Bestu deildar karla í fótbolta, tókst hinsvegar að breyta því og vann 2-0.

Það verður seint sagt að skemmtanagildið hafi verið mikið í fyrri hálfleik. Breiðablik átti fleiri færi í fyrri hálfleik og voru hættulegir á köflum en Framarar áttu ágætis áhlaup inn á milli. Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik og staðan því 0-0 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Seinni hálfleikurinn var töluvert líflegri og áfram héldu Blikar að vera sterkari aðilinn í leiknum. Þegar rúmlega tíu mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik spiluðu Blikar upp völlinn. Jason Daði Svanþórsson sendir boltann á Sölva Snæ Guðbjargarson sem er staðsettur rétt fyrir utan teig, Sölvi leggur boltann fyrir sig og skorar. Staðan 1-0 fyrir Breiðablik. 

Á 71. mínútu rífur Jesus Natividad Yendis Gomez Ísak Snæ Þorvaldsson niður rétt fyrir utan teig. Allt varð vitlaust á vellinum og endaði dómari leiksins Elías Ingi Árnason að gefa Delphin Tshiembe beint rautt spjald. Eftir nokkra umhugsun tók hann spjaldið til baka og gaf réttum manni spjaldið, sem var Jesu Natividad Yendis Gomez. 

Þegar tæplega tíu mínútur voru til leiksloka gefur Davíð Ingvarsson boltann fyrir, Ísak Snær Þorvaldsson nær að hæla boltann yfir á Höskuld Gunnlaugsson sem er í góðu færi og skorar, 2-0 fyrir Breiðablik. Meira gerðist ekki í þessum leik og unnu Blikar góðan tveggja marka sigur. 

Afhverju vann Breiðablik?

Þeir voru meira með boltann í leiknum og voru að spila töluvert agaðri sóknarleik heldur en Fram. Fram fékk ekki mörg tækifæri til þess að skora í leiknum sem skrifast á góðan varnarleik Blika þrátt fyrir fjarveru lykilleikmanna. 

Hverjir stóðu uppúr?

Hjá Breiðabliki er það Höskuldur Gunnlaugsson sem skoraði mark og var mjög góður í leiknum, allt í öllu og stendur alltaf fyrir sínu. Leikur Breiðabliks í heildina var líka góður, það eru allir með sitt einstaklings framlag og hefur það sýnt sig og sannað að það skilar sigrunum. 

Hvað gekk illa?

Það er alltaf hægt að setja það á varnarleikinn þegar að lið fær á sig tvö mörk en svo var sóknarleikur Framara ekki mjög sannfærandi. Þeir voru mest að keyra á skyndisóknum sem skilaði þeim litlu í staðinn fyrir að reyna að spila boltanum upp og fá færin þannig. 

Hvað gerist næst?

Sunnudaginn 28. ágúst kl 19:15 tekur Breiðablik á móti Leikni. Mánudaginn 29. ágúst kl 19:15 sækir Fram Val heim. 

Jón Þórir Sveinsson: „Þetta var ekki nógu góður leikur af okkar hálfu heilt yfir“

Jón Þórir Sveinsson (með derhúfuna) var ekki sáttur í leikslok.Vísir/Diego

„Þetta var ekki nógu góður leikur af okkar hálfu heilt yfir. Við áttum svolítið undir högg að sækja, vörðumst ágætlega og lokuðum á það sem kom. Ef við hefðum náð að halda þessu aðeins lengur út hefðum við náð að koma okkur betur inn í leikinn. Heilt yfir held ég að þetta sé sanngjarn sigur Breiðabliks,“ sagði Jón Þórir Sveinsson, þjálfari Fram, eftir 2-0 tap á móti Breiðabliki sem var jafnframt fyrsta tap Fram á nýjum heimavelli þeirra í Úlfarsárdal. 

„Við þurfum kannski að þora að halda boltanum betur, sérstaklega í fyrri hálfleik. Það gekk ekki nógu vel að færa hann á milli. Blikarnir gerðu okkur erfitt fyrir þannig að kannski bara helst það.“ 

Þegar rúmlega 70. mínútur voru liðnar af leiknum fékk Jesus Natividad Yenis Gomez beint rautt spjald eftir brot á Ísaki Snæ Þorvaldssyni rétt fyrir utan teig. 

„Ég verð að treysta dómaranum fyrir því. Ég er svo lélegur dómari að ég veit ekki hvaða reglur eru. Þeir komast í færi, fá hagnaðinn, dauðafæri og svo aukaspyrnu og rautt spjald. Svolítið mikið í einum pakka þarna en örugglega rétt hjá honum. Ég treysti mér ekki til þess að tjá mig um það.“

Fyrir næsta leik vill Jón að strákarnir girði sig aðeins í brók og verði ekki jafn ragir við að halda boltanum. 

„Við þurfum aðeins að girða okkur í brók. Það vantaði ekkert upp á vinnslu og baráttu í sjálfu sér, kannski vorum við of ragir við að halda boltanum á stundum. Það gekk illa að færa hann á milli og menn voru svolítið staðir á vellinum. Við getum gert betur næst, það er ekki spurning.“


Tengdar fréttir

„Við vissum það að það væri erfitt verkefni að koma hérna og fara með þrjú stig héðan“

„Ég er mjög sáttur. Við vissum það að það væri erfitt verkefni að koma hérna og fara með þrjú stig héðan. Það er mjög gott og við erum á góðu skriði. Þeir eru auðvitað ósigraðir síðan að þeir komu hingað í Úlfarsárdal, þennan glæsilega heimavöll, þannig að ég er bara ánægður,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, eftir 2-0 sigur á Fram í kvöld. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira