Enski boltinn

Klopp sýnir Ten Hag enga samúð

Sindri Sverrisson skrifar
Erik ten Hag og Jürgen Klopp verða á hliðarlínunni á Old Trafford í kvöld þegar Manchester United og Liverpool mætast í leik þar sem bæði lið þurfa sárlega á sigri að halda.
Erik ten Hag og Jürgen Klopp verða á hliðarlínunni á Old Trafford í kvöld þegar Manchester United og Liverpool mætast í leik þar sem bæði lið þurfa sárlega á sigri að halda. Getty/Mike Hewitt

Hollendingurinn Erik ten Hag stendur nú í svipuðum sporum og Þjóðverjinn Jürgen Klopp var í fyrir sjö árum. Ten Hag er ætlað að koma stórveldi Manchester United aftur í hæstu hæðir en strax heyrast efasemdaraddir um að hann sé maðurinn til þess, eftir slæm úrslit í fyrstu tveimur umferðum ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.

Klopp mætir með sína menn í Liverpool á Old Trafford í kvöld og vonast sjálfsagt eftir sams konar yfirburðum og í fyrra, þegar Liverpool vann þar 5-0 risasigur eftir að hafa skorað fjögur mörk í fyrri hálfleik.

Hann finnur að minnsta kosti enga þörf til að vorkenna Ten Hag yfir þeirri stöðu sem Hollendingurinn er í – að hafa byrjað svo illa í tilraun sinni til að endurmóta leikmannahóp og leikstíl United, eftir að hafa náð frábærum árangri í sínu fyrra starfi rétt eins og Klopp þegar hann mætti til Liverpool á sínum tíma.

„Finn ég fyrir samúð? Nei,“ sagði Klopp samkvæmt Liverpool Echo. „Ef þetta snýst um fótboltavandræði þá erum við allir að glíma við vandræði. Ég efast um að þið farið núna til Manchester United og spyrjið Erik ten Hag hvort honum finnist við vera að glíma við einum of mörg meiðsli. Þannig virkar þetta ekki,“ sagði Klopp.

Meiðsli hafa herjað á lið Liverpool og ekki bætti úr skák að nýi maðurinn, Darwin Nunez, lét nappa sig í gildru í síðasta leik og uppskar rautt spjald fyrir að skalla Joachim Andersen, leikmann Crystal Palace. Liverpool er enn án sigurs og getur misst United upp fyrir sig í kvöld.

„Hafið er fullt af hákörlum í fótboltaheiminum. Það er ekki nauðsynlegt að ég sýni einhverja samúð. Það myndi ekki hjálpa þeim og það skaðar þá ekki að ég geri það ekki. Við erum allir að glíma við okkar vandamál og svo einfalt er það,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×