Enski boltinn

Arteta tileinkaði sigurinn vallarstjóra sem lést langt um aldur fram

Valur Páll Eiríksson skrifar
Arteta segir arfleifð Braddock hjá félaginu vera stórkostlega.
Arteta segir arfleifð Braddock hjá félaginu vera stórkostlega. Dan Mullan/Getty Images

Arsenal vann öruggan 3-0 sigur á Bournemouth er liðin áttust við á heimavelli síðarnefnda liðsins á suðurströnd Englands í ensku úrvalsdeildinni í gær. Mikel Arteta, stjóri Arsenal, tileinkaði sigurinn vallarstjóra félagsins, sem lést degi fyrir leik.

Braddock hafði starfað hjá Arsenal frá árinu 1987 en þáverandi knattspyrnustjóri liðsins, George Graham, vildi fá inn mann sem sem gæti gert Highbury-völlinn að öfundarefni annarra liða í deildinni þegar kæmi að gæði grass.

Braddock afrekaði það en hann hefur fengið fjölmörg verðlaun fyrir störf sín, þar á meðal fékk hann verðlaun bæði 2019 og 2020 fyrir völl ársins í ensku úrvalsdeildinni.

Hann hafði glímt við veikindi um hríð og lést af þeim á föstudag, aðeins 58 ára að aldri. Leikmenn Arsenal voru því með svört sorgarbönd í leik gærdagsins og þá tileinkaði Mikel Arteta, þjálfari liðsins, Braddock sigurinn eftir leik.

„Við viljum tileinka þennan sigur minningu hans og fjölskyldu hans. Það var heiður að kynnast honum, hann skilur eftir sig tómarúm hjá félaginu og arfleifðin sem hann skilur eftir er stórkostleg. Megi hann hvíla í friði,“ sagði Arteta í viðtali eftir leik.

Arsenal hefur farið fljúgandi af stað inn í mótið en sigur gærdagsins var sá þriðji í jafnmörgum leikjum. Liðið er því á toppi deildarinnar með níu stig, en Manchester City getur jafnað Arsenal að stigum með sigri á Newcastle United seinni partinn í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×