Enski boltinn

Ólíklegt að Man. Utd nái að klára Casemiro fyrir Liverpool leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Casemiro ræðir við Carlo Ancelotti eftir sigur Real Madrid í Ofurbikar Evrópu á dögunum.
Casemiro ræðir við Carlo Ancelotti eftir sigur Real Madrid í Ofurbikar Evrópu á dögunum. AP/Sergei Grits

Það virðist fátt ætla að koma í veg fyrr það að brasilíski miðjumaðurinn Casemiro taki tilboði enska úrvalsdeildarliðsins Manchester United og að Real Madrid sé tilbúið að selja hann.

Erlendir fjölmiðlar skrifa mikið um möguleg kaup Manchester United á þessum öfluga miðjumanni sem gæti gert mikið fyrir miðju liðsins sem væri þá mögulega skipuð af Casemiro, Bruno Fernandes og Christian Eriksen sem hljómar alls ekki illa.

Hinn þrítugi Casemiro hefur átt frábæran tíma há Real Madrid og meðal annars unnið fimm Meistaradeildartitla með félaginu.

Hann ræddi við Carlo Ancelotti, þjálfara Real Madrid, sem vill halda honum hjá spænska félaginu. Þetta er hins vegar spurning fyrir Casemiro að ná einum risasamning í viðbót á ferlinum.

Fabrizio Romano er að vanda með puttann á púlsinum og hann segir að næstu klukkutímar munu skipta miklu máli.

Forráðamenn Manchester United halda að þetta sé bara tímaspursmál og það tæki bara 24 til 48 klukkutíma að skipuleggja og klára læknisskoðun, ganga frá vegabréfsáritun og undirrita fjögurra ára samning.

Það er samt talið ólíklegt að Manchester United nái að klára Casemiro fyrir Liverpool leikinn sem er á mánudagskvöldið.

Það er hins vegar von á formlegu tilboði í dag samkvæmt heimildum Romano. Real Madrid er tilbúið að selja leikmanninn fyrir sextíu milljónir evra.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.