Erlent

Öldungadeildin samþykkir sögulegt frumvarp í baráttunni gegn loftslagsbreytingum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Chuck Schumer, leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni, var kátur að atkvæðagreiðslu lokinni. Samþykkt frumvarpsins er mikill sigur fyrir hann og Joe Biden Bandaríkjaforseta.
Chuck Schumer, leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni, var kátur að atkvæðagreiðslu lokinni. Samþykkt frumvarpsins er mikill sigur fyrir hann og Joe Biden Bandaríkjaforseta. AP/Lisa Mascaro

Öldungadeild bandaríska þingsins samþykkti í gær löggjöf sem kveður á um eina umfangsmestu fjárfestingu Bandaríkjanna í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og til að lækka smásöluverð á lyfseðilsskyldum lyfjum.

Fjárfestingin nemur um 370 milljörðum Bandaríkjadala og miðar að því að gera Bandaríkjunum kleift að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40 prósent fyrir 2030, frá því sem var árið 2005.

Lögin kveða einnig á um heimild til handa opinbera sjúkratryggingakerfinu Medicare til að semja beint við lyfjaframleiðendur og setja 2.000 dollara þak á þann kostnað sem sjúklingar þurfa að greiða úr eigin vasa á hverju ári fyrir lyfseðilsskyld lyf.

Atkvæði með og á móti frumvarpinu féllu eftir flokkslínum en það var samþykkt með 51 atkvæði gegn 50. 

Samþykkt laganna er mikill sigur fyrir Joe Biden Bandaríkjaforseta en þó er um að ræða nokkuð útþynntar hugmyndir frá því sem lagt var upp með, þar sem taka þurfti út ákvæði um milljarða framlög til niðurgreiðslu barnagæslu og foreldraorlofs, sem og ákvæði er vörðuðu breytingar á skattalöggjöf repúblikana frá 2017. 

Þetta þurfti að gera til að tryggja atkvæði tveggja demókrata sem hafa verði til nokkurra vandræða fyrir flokkinn, þeirra Joe Manchin frá Vestur-Virginíu og Kyrsten Sinema frá Arizona.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.