Enski boltinn

Fyrstur frá Joe Cole til að sjá rautt í frumraun á Anfield

Valur Páll Eiríksson skrifar
Núñez var ósáttur við dóminn en á líklega yfir höfði sér þriggja leikja bann.
Núñez var ósáttur við dóminn en á líklega yfir höfði sér þriggja leikja bann. EPA-EFE/ANDREW YATES

Úrúgvæinn Darwin Núñez fékk að líta beint rautt spjald í frumraun sinni með Liverpool á Anfield í kvöld, þar sem liðið gerði 1-1 jafntefli við Crystal Palace. Hann er aðeins annar Liverpool-maðurinn í sögunni sem fær rautt í fyrsta leik á Anfield.

Liverpool átti í töluverðum vandræðum með að brjóta þétta vörn Crystal Palace aftur í kvöld en Daninn Joachim Andersen fór fyrir vörninni og átti hörkugóðan leik. Hann var mikið í baráttunni við Núñez sem lét þann danska fara töluvert í taugarnar á sér.

Það var þá á 57. mínútu sem Andersen hreytti einhverju í Núñez og sá úrúgvæski sneri sér við og virtist ætla að setja kassann í Danann en setti haus sinn einnig í andlit Andersens og fékk því réttilega að líta beint rautt spjald.

Spennustigið hefur eitthvað farið með þann úrúgvæska og allar líkur eru á að hann fari í þriggja leikja bann, líkt og venjan er þegar um ofbeldisbrot eru að ræða.

Hann er aðeins annar leikmaður Liverpool í sögunni sem fær að líta beint rautt spjald í sínum fyrsta leik á Anfield. Hinn var Joe Cole, sem kom frítt til Liverpool frá Chelsea sumarið 2010.

Hann fékk að líta beint rautt spjald fyrir að tækla Laurent Koscielny í sköflunginn í leik gegn Arsenal í ágúst 2010. Þeim leik lauk einnig með 1-1 jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×