Umfjöllun og viðtöl: Fram-Leiknir R. 4-1 | Fram forðast fallsvæðið enn frekar

Hjörvar Ólafsson skrifar
Guðmundur Magnússon hefur farið mikinn í sumar.
Guðmundur Magnússon hefur farið mikinn í sumar. Vísir/Diego

Fram hafði betur með fjórum mörkum gegn einu þegar liðið fékk Leikni Reykjavík í heimsókn í Úlfarsárdal í 17. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld. Fram er nú að gæla sterklega við að komast á efra skiltið á töflunni en Leiknir er enn í kjallaranum.

Frammar hafa búið til vígi í Úlfarsárdalnum en liðið hefur ekki enn beðið ósigur á nýjum heimavelli sínum þar. Fram hefur nú spilað fimm leiki þar, borið sigur úr býtum í tveimur og gert þrjú jafntefli.

Fram náði forystunni eftir tæplega tíu mínútna leik en þar var Magnús Þórðarson að verki. Viktor Freyr Sigurðsson, markvörður Leiknis, gerði þá klaufaleg mistök en hann missti laust skot Magnúsar milli handa sinna.

Fyrri hálfkeikur var heilt yfir fremur bragðdaufur en Fram var ívíð sterkari aðilinn án þess að skapa sér mörg opin marktækifæri. Meira fjör færðist í leikana í seinni hálfleik.

Lifnaði yfir leiknum í seinni hálfleik

Strax í upphafi seinni hálfleiks tvöfaldaði fram forskot sitt. Hornspyrna Tiago Fernandes rataði þá beint á ennið á Brynjari Gauta Guðjónssyni sem skallaði boltann í netið af stuttu færi.

Leiknismenn strengdu sér líflínu eftir um það bil klukkutíma leik. Delphin Tshiembe ýtti þá í bak Birgis Baldvinssonar og vítaspyrna dæmd. Emil Berger skoraði af miklu öryggi úr vítaspyrnunni.

Frammarar voru hins vegar ekki á þeim buxunum að missa þennan leik niður í jafntefli eins og þeir gerðu gegn Víkingi og Stjörnunni í síðustu umferðum deildarinnar og KR þar áður.

Guðmundur Magnússon róaði taugar stuðningsmanna Fram með marki sínu eftir 64 mínútna en aftur var það fast leikatriði Tiago sem skapaði mark. Guðmundur hefur nú skorað 12 mörk í deildinni í sumar líkt og Ísak Snær Þorvaldsson.

Þeir eru næstir á eftir Nökkva Þeyr Þórissyni en hann er markahæstur í deildinni með 13 mörk.

Albert Hafsteinsson bætti svo fjórða marki Fram við tveimur mínútum síðar en eftir laglega sókn heimamanna renndi Almarr Ormarsson boltanum á Albert sem kláraði færið af yfirvegun.

Fram komst upp að hlið Keflavíkur með þessum sigri en liðin hafa hvort um sig 22 stig í sjöunda til áttunda sæti deildarinnar. Liðin eru þremur stigum á eftir KR sem situr í sjötta sæti. Frammarar eru því að gera sig gildandi í baráttunni um að vera í efri helmingnum þegar deildinni verður skipt upp að 22 umferðum loknum.

Leiknir er hins vegar í næstneðsta sæti með 10 stig og er enn einu stigi á eftir FH sem er í sætinu fyrir ofan fallsvæðið. Breiðhyltingar eiga leik til góða á FH-inga.

Jóni Þóri Sveinssyni og lærisveinum hans líður vel í Úlfarsárdalnum. Vísir/Diego

Jón Þórir: Komumst í gírinn í seinni hálfleik

„Leikurinn fór rólega af stað en við skiptum um gír þegar líða tók á leikinn og náðum að færa boltann hraðar. Við náðum upp góðum spilköflum og skoruðum bæði eftir opið spil og föst leikatrið sem er jákvætt," sagði Jón Þórir Sveinsson, þjálfari Fram glaðbeittur eftir leikinn. 

„Við skiptum svo ferskum löppum inná og eins og ég hef sagt áður í sumar þá erum við með breiðan leikmannahóp af flottum leikmönnum. Það var gaman að sjá hvað varamennirnir komu vel inn í leikinn," sagði Jón Þórir enn fremur. 

Fram er 12 stigum frá fallsvæðinu og þremur stigum frá efstu sex sætunum eftir þennan sigur og þjálfarinn er sáttur við stöðuna: „Við erum búnir að spila vel í sumar og stigasöfnunin hefur verið góð. Við erum sáttir við bæði frammistöðuna og þann stað sem við erum á," sagði þessi reynslumikli þjálfari. 

Sigurður Heiðar: Bar þess merki að við erum í vandræðum

„Við fáum blautar tuskur í andlitið á okkur í upphafi beggja hálfleikja en mér fannst við flottir í fyrri hálfleik. Orkustigið og skipulagið var gott og jafnræði með liðunum. Fyrsta markið sem við fáum á okkur var slysalegt og ekkert við því að gera," sagði Sigurður Heiðar súr en upplitsdjarfur. 

„Eftir að þeir skora tvö mörk með skömmu millibili fer þetta að slitna hjá okkur og síðasti hálftíminn var ekki góður af okkar hálfu. Mér fannst spilamennskan heilt yfir einkennast af því að við höfum verið í brasi. Það skorti trú á allar aðgerðir, við þorðum ekki að halda í boltann og taka menn á og taka frumkvæðið í leiknum. 

Við verðum að laga það í framahaldinu. Það má hins vegar ekki gleyma því að við erum að spila án sjö lykilleikmanna hér í kvöld og Óttar Bjarni gat bara spilað hálfleik vegna höfuðmeiðsla sinna. Við munum endurheimta eitthvað af þeim leikmönnum sem voru fjarverandi í kvöld í næsta leik og þá þéttist hópurinn," sagði hann um leikinn í kvöld og næstu bardaga. 

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis.Vísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Fram?

Þolinmæðisverk leikmanna Fram við að brjóta varnarmúr Leiknis á bak aftur skilaði sér. Tvö föst leikatriði og tvær laglegir sóknir skiluðu mörkunum sem tryggðu sigurinn.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Leiknis var afar bitlaus í þessum leik en framherjar liðsins, Zean Peets Dalügge og Róbert Hauksson, fengu úr litlu að moða. Viktor Freyr hefur svo átt betri daga í marki Leiknis.

Hverjir sköruðu fram úr?

Brynjar Gauti var öflugur í vörn Frammara og skoraði mark hinu megin. Almarr var góður inni á miðjunni hjá Fram. Þá var Tiago mikið í boltanum og miðpunktur í mörgum sóknum heimamanna. Tvö föst leikatriði portúgalska kantmannsins sköpuðu mörk. 

Birgir var manna líflegastur í sóknarleik Leiknis sem var þó ekki upp á marga fiska. Vinstri vængbakvörðurinn gerði vel þegar hann nældi í vítaspyrnuna sem Emil Bergar skoraði úr.

Hvað gerist næst?

Fram fær topplið deildarinnar, Breiðablik, í heimsókn í Úlfarsárdalinn eftir slétta viku en á sama tíma etur Leiknir kappi við KR í Breiðholtinu.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.