Erlent

Rushdie kominn úr öndunarvél

Samúel Karl Ólason skrifar
Salman Rushdie.
Salman Rushdie. EPA/ARMANDO BABANI

Salman Rushdie er kominn úr öndunarvél og farinn að tala og segja brandara. Þetta segir vinur rithöfundarins, en ráðist var á Rushdie á sviði í New York á dögunum þar sem hann ætlaði að halda fyrirlestur. Rushdie var stunginn ítrekað og fluttur á sjúkrahús.

Í samtali við AP fréttaveituna staðfesti Andrew Wylie, umboðsmaður Rushdie, að hann væri úr öndunarvél.

Hadi Matar, sem réðst á Rushdie, var færður fyrir dómara í gær, þar sem hann lýsti yfir afstöðu sinni gagnvart ákærum um árás og tilraun til manndráps. Lögmaður Matar sagði hann saklausan af þessum ákærum.

Saksóknarar segja að Matar hafi skipulagt árásina og að hann hafi ætlað að myrða Rushdie. Hann hafi keypt sér miða á ráðstefnuna þar sem Rushdie átti að halda fyrirlestur, mætt degi áður og notað fölsk skilríki. Dómari úrskurðaði að Matar yrði ekki sleppt lausum gegn tryggingu.

Rushdie hefur um árabil þurft að fara huldu höfði vegna morðhótana í kjölfar þess að Ruholla Khomeini, æðstiklerkur Írans, gaf út svokallað „fatwa“ gegn Rushdie, sem þýddi í raun að hann varð réttdræpur og voru þrjár milljónir dala settar til höfuðs hans. Það var eftir að hann gaf út bókina Söngvar Satans.

Hinn 75 ára gamli Rushdie er sagður líklegur til að missa annað augað vegna árásarinnar. Hann er einnig með skaddaða lifur og skemmdar taugar í öðrum handleggnum.

Matar, sem er 24 ára gamall, hefur ekki sagt af hverju hann framdi árásina og lögreglan hefur hingað til sagt að tilefni liggi ekki fyrir. Matar er þó sagður hafa verið dyggur stuðningsmaður Írans á samfélagsmiðlum.

Hadi Matar sagðist í gærkvöldi saklaus gagnvart ákærum um líkamsárás og tilraun til manndráps.AP/Gene J. Puskar

Tengdar fréttir

Hafa borið kennsl á á­rásar­mann Rus­hdi­e

Lögreglan í New York hefur borið kennsl á manninn sem réðst á rithöfundinn Salman Rushdie er hann hélt fyrirlestur í dag. Rushdie var stunginn nokkrum sinnum í kviðinn og hálsinn.

Sal­man Rus­hdi­e stunginn á sviði

Ráðist var á rithöfundinn Salman Rushdie á meðan hann hélt fyrirlestur í New York í dag. Hann hefur um áratugabil mátt sæta stöðugum líflátshótunum vegna bókar hans Söngva Satans.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.