Íslenski boltinn

Fyrir­liði Þróttar frá næstu vikurnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Álfhildur Rósa Kjartansdóttir sárkvalin.
Álfhildur Rósa Kjartansdóttir sárkvalin. Vísir/Hulda Margrét

Álfhildur Rósa Kjartansdóttir verður frá næstu vikurnar vegna meiðsla sem hún varð fyrir í 3-0 sigri Þróttar Reykjavíkur á Selfossi í síðustu umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta.

Þetta staðfesti Nik Chamberlain, þjálfari Þróttar, í viðtali við Fótbolti.net. Þar segir að hann sem betur fer sé Álfhildur Rósa ekki brotin en það sé ljóst að hún verði frá í nokkurn tíma. Nik var vægast sagt ósáttur með dómgæsluna í leiknum og lét gamminn geisa eftir leik.

„Ég vona að dómararnir fari að vernda leikmenn betur í framhaldinu því leikmenn hafa verið að meiðast því verndin á leikmönnum hefur verið hræðileg og hún var aftur hræðileg í kvöld. Það hefur verið allt of lítið spjaldað í allt sumar, dómarar eru einfaldlega ekki að passa upp á leikmenn,“ sagði Nik skömmu eftir leik og hélt svo áfram:

„Okkur er sama þótt leikurinn sé líkamlega harður en það eru litlu atriðin. Það er svo mikið verið að ýta í bakið þegar boltinn er farinn og það er hættulegt því þú getur óvart ýtt þeim of langt í stöður sem þeir eru ekki í stjórn. Þetta sést á hæsta stigi fótboltans að allar hrindingar í bakið eru bannaðar, en að einhverjum ástæðum þá er þetta leyfilegt í Bestu deild kvenna.“

Ásmundur Þór Sveinsson dæmdi leikinn.Vísir/Hulda Margrét

Það er ljóst að um mikið áfall er að ræða fyrir bæði Álfhildi Rósu sem og Þrótt. Liðið er nú þegar án Jelenu Tinnu Kujundzic en hún meiddist gegn Breiðabliki þann 14. júní síðastliðinn og er ekki enn snúin til baka.

Þróttur er í harðri baráttu við Stjörnuna og ÍBV um 3. sæti Bestu deildarinnar en liðið er sem stendur í 4. sæti með 22 stig, tveimur stigum minna en Stjarnan sem situr í 3. sæti með 24 stig eftir að hafa leikið leik meira.


Besta deildin er á Stöð 2 Sport. Smelltu hér til að horfa á leiki og þætti. Besta deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 kr. á mánuði og má kaupa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×