Leik lokið: Breiðablik-ÍA 3-1 | Blikar komu til baka gegn Skagamönnum

Hjörvar Ólafsson skrifar
Blikar fóru með sigur af hólmi gegn Skagamönnum í leik liðanna í kvöld. 
Blikar fóru með sigur af hólmi gegn Skagamönnum í leik liðanna í kvöld.  Vísir/Diego

Breiðablik bar sigurorð af ÍA með þremur mörkum gegn einu þegar liðin áttust við í 15. umferðar í Bestu deild karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. Skagamenn komust yfir í leiknum en þrjú mörk Blika á níu mínútna kafla tryggðu heimamönnum sigur og níu stiga forystu á toppi deildarinnar.

Gísli Laxdal Unnarsson kom gestunum yfir eftir 10 mínútna leik í seinni hálfleik. Eyþór Aron Wöhler sendi þá hárnákvæma fyrirgjöf á Gísla Laxdal sem var einn á auðum sjó á fjærstönginni og setti boltann í netið.

Blikar snéru hins vegar taflinu sér í vil á tveggja mínútna kafla eftir rúmlega klukkutíma leik. Þar voru að verki Kristinn Steindórsson og Damir Muminovic. Höskuldur átti stoðsendingu í marki Damirs sem reis manna hæst í vítateig Skagamanna eftir hornspyrnu fyrirliðans og stangaði boltann í netið.

Kristinn Steindórsson kom Breiðabliki á bragðið. 

Ísak Snær Þorvaldsson kom svo Blikum í 3-1 skömmu síðar en Dagur Dan Þórhallsson var arkitektinn af því marki. Dagur Dan, sem lék í stöðu vinstri bakvarðar í stað Davíðs Ingvarssonar í þessum leik, geystist upp vænginn og lagði boltann á Ísak Snæ sem kláraði færið af stakri prýði.

Ísak Snær er nú markahæsti leikmaður deildarinnar með 12 mörk en Guðmundur Magnússon, sóknarmaður Fram, kemur næstur með sín 11 mörk og KA-maðurinn Nökkvi Þeyr Þórisson er þriðji á listanum með 10 mörk. 

Eins og við var að búast var Breiðablik mun meira með boltann í þessum leik og sóttu meira. Illa gekk hins vegar að skapa opin færi í fyrri hálfleik og möguleikar heimamanna framan af leik fólust í skotum við vítateigslínuna. Það var ekki síst aukin þátttaka bakvarðanna, Dags Dan og Höskuldar, í seinni hálfleik sem varð til þess að Blikar fengu fleiri og opnari færi.

Dagur Dan Þórhallson stóð sig einkar vel í vinstri bakvarðarstöðunni. 

Skagamenn sem hafa fengið á sig 13 mörk í síðustu fjórum leikjum sínum en varnarleikur liðsins var vel skipulagður og öflugur framan af leik. Eftir að gestirnir af Skaganum komust yfir náðu leikmenn Blika hins vegar að finna lausnir í sóknaraðgerðum sínum.

Bakvið varnarlínu Skagaliðsins var kominn Árni Marínó Einarsson og lítið var við hann að sakast í þeim mörkum sem Skaginn fékk á sig í kvöld. Þá varði Árni Marínó nokkrum sinnum vel og var öruggum í sínum aðgerðum.

Niðurstaðan í þessum leik var sanngjarn sigur Breiðabliks sem hefur nú níu stiga forskot á Víking á toppi deildarinnar. Víkingur á aftur á móti leik til góða á Blika. 

Leikmenn Blika fagna hér einu af þremur mörkum sínum. 

Óskar Hrafn: Dagur Dan frábær í algjörlega nýrri stöðu

„Mér fannst þessu sigur fyllilega sanngjarn og það breytti litlu hvað spilamennsku okkar varðar að hafa lent undir. Við settum bara aðeins meiri kraft í sóknaraðerðir okkar og það skilaði sér. Það var ekkert stress við að fá markið í andlitið, það er styrkleikamerki," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks að leik loknum. 

„Við vorum svolítið værukærir í sendingum og því sem við vorum að gera framan af leik. Það var hins vegar ekkert út á vinnuframlagið eða viljann að setja í þessum leik. Leikmenn gáfu allt sem þeir gátu í leikinn og þegar við brutum ísinn gengum við á lagið," sagði Óskar Hrafn sem var svo spurður út í frammistöðu bakvarða sinna sem tóku virkan þátt í sóknarleiknum. 

„Dagur Dan var algjörlega frábær í stöðu sem hann hefur aldrei spilað áður. Hann var síógnandi allan leikinn og uppskar laun erfiðsins þegar hann lagði upp þriðja markið. Við viljum hafa bakverðina með í sóknaraðgerðum okkar og það gekk upp í þessum leik að koma þeim vel inn í uppspilið," sagði þjálfarinn glaður. 

„Nú þurfum við bara að ná góðri endurheimt fyrir komandi verkefni. Það er afar jákvætt að hafa nóg að gera og þú færð mig ekki til þess að kvarta yfir leikjaálagi. Svona viljum við hafa þetta og við erum orðnir vanir að hafa stutt á milli leikja," sagði hann um framhaldið. 

Óskar Hrafn Þorvaldsson var kampakátur í leikslok. Jón Þór: Margt jákvætt sem við getum tekið út úr þessum leik

„Skipulagið hélt vel fyrsta klukkutímann og við fengum færi í fyrri hálfleik til þess að komast yfir. Eftir að Blikar komast yfir færðum við okkur hins vegar framar og þá gáfum við færi á okkur og fengum það í bakið," sagði Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA í leikslok. 

„Við getum klárlega tekið margt jákvætt úr þessum leik í þá erfiðu baráttu sem fram undan er. Við sýndum það klárlega í þessum leik að við getum varist vel sem lið þegar sá gállinn er á okkur. Þá voru sóknir okkar vel útfærðar þegar við unnum boltann," sagði Jón Þór enn fremur. 

„Við fengum líka góða orku úr varamönnum og þeir gerðu nákvæmlega það sem ég bað þá um að gera. Það eykur breiddina og samkeppnina í liðinu að fá svona góðar innkomur sem er bara hið besta mál. Ég er sannfærður um það ef við spilum jafn vel og við gerðum á löngum köflum í þessum leik að við munum hala inn stig í komandi leikjum," sagði hann.  

Jón Þór Haukssson hugsi á hliðarlínunni. 

Af hverju vann Breiðablik?

Blikar sýndu þolinmæði í sóknaraðgerðum og þroskaða frammistöðu eftir að þeir lentu undir. Eftir að hafa lent undir settu Blikar meiri kraft og gæði í það sem þeir höfðu verið að gera fram að því að Skaginn skoraði. Það skilaði sér í þremur mörkum.  

Hvað gekk illa?

Skagamenn náðu ekki að halda varnarskipulagi sínu sem gekk vel fyrsta klukkutímann. Það er vont fyrir lið í erfiðri stöðu að fá á sig mark úr föstu leikatriði en mark Damirs sem kom Blikum í 2-1 breytti leikmyndinni töluvert. 

Hverjir sköruðu fram úr?

Bakverðir Breiðabliks, Höskuldur og Dagur Dan voru góðir þá sérstaklega í sóknarleik liðsins. Dagur Dan var eins og rennilás allan leikinn og lagði upp mark Ísaks Snæs. Höskuldur kom sér svo í gott færi í marki Kristins og átti sendinguna í marki Damirs. 

Gísli Laxdal var öflugastur í sóknarleik Skagamanna og skoraði gott mark. Árni Marínó átti svo gott kvöld í marki Skagamanna þrátt fyrri að hafa fengið á sig þrjú mörk. 

Hvað gerist næst?

Blikar snúa sér að næsta verkefni sínu í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu en liðið fær tyrkneska liðið Istanbul Basaksehir í heimsókn í Kópavoginn á fimmtudaginn kemur. Skagamenn fá hins vegar Val í heimsókn í Bestu deildinni á sunnudaginn næsta. 

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.