Erlent

Indiana leggur nær al­gjört bann við þungunar­rofi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Mótmælandinn Kayce Kean mótmælir fyrir framan þinghús Indiana á meðan þingmenn ríkisins samþykkja frumvarp sem bannar þungunarrof í ríkinu.
Mótmælandinn Kayce Kean mótmælir fyrir framan þinghús Indiana á meðan þingmenn ríkisins samþykkja frumvarp sem bannar þungunarrof í ríkinu. AP/Jenna Watson

Lagafrumvarp sem leggur nær algjört bann við þungunarrofi í Indiana-ríki í Bandaríkjunum var samþykkt af þingmönnum ríkisins í dag með lægsta atkvæðafjölda sem þurfti til að hleypa því í gegn. Einungis verði hægt að rjúfa þungun í tilfelli nauðgana eða sifjaspells.

Lagafrumvarpið leggur bann við þungunarrofi frá því að sæðisfruma hefur frjóvgað egg. Einu undantekningarnar sem má rjúfa þungun samkvæmt frumvarpinu eru í tilfellum nauðgana og sifjaspells en þá þurfi leghafi að skrifa undir eiðsvarna yfirlýsingu þess efnis.

Þingmenn þingsins í Indiana hlýða á umræður um frumvarpið á þinginu.AP/Jenna Watson

Þetta kemur fram í frétt AP um málið.

Lagafrumvarpið rétt svo náði í gegnum þing ríkisins sem Repúblikanar stýra. Tuttugu þingmenn kusu gegn frumvarpinu en 26 þingmenn kusu með því sem er lágmarks fjöldi atkvæða sem frumvarp þarf til að hægt sé að senda það áfram til fulltrúadeildar Bandaríska þingsins.

Indiana var eitt fyrsta fylkið til að hefja umræður um að herða lög sem snúa að þungunarrofi eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna felldi fordæmið Roe gegn Wade sem hafði tryggt rétt allra Bandaríkjabúa til þungunarrofs. 

Og nú hefur Indíana fylgt í fótspor fylkja á borð við Kentucky, Lúisíana, Arkansas, Suður-Dakóta, Missouri, Oklahoma og Alabama.

Samkvæmt skoðanakönnun sem var lögð fyrir þúsund Bandaríkjabúa um land allt nýverið er meirihluti Bandaríkjabúa fylgjandi því að þungunarrof sé leyft í ákveðnum tilfellum, það er ef lífi hins ólétta er ógnað eða ef þungunin er af völdum nauðgunar eða sifjaspells. Þá sögðust fáir sem svöruðu könnuninni vera hlynntir algjöru banni við þungunarrofi.

Mótmælendur mótmæla frumvarpi sem leggur bann við þungunarrofi fyrir framan þinghús Indiana-ríkis.AP/Jenna Watson

Tengdar fréttir

Hæstiréttur hyggst snúa niðurstöðunni í Roe gegn Wade

Það stefnir í öldu mótmæla í Bandaríkjunum eftir að Politico greindi frá því að hæstiréttur landsins hyggst snúa dómnum í máli Roe gegn Wade. Í umræddu máli komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að réttur kvenna til að gangast undir þungunarrof ætti stoð í stjórnarskrá landsins en íhaldsmenn hafa barist fyrir því í áratugi að fá dómnum hnekkt.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.