Enski boltinn

Klopp hefur áhyggjur og bætir við æfingaleik eftir að tímabilið er byrjað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, fylgist með æfingaleik liðsins á móti Red Bull Salzburg í vikunni.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, fylgist með æfingaleik liðsins á móti Red Bull Salzburg í vikunni. AP/Hendrik Schmidt

Tímabilið hjá Liverpool hefst formlega á morgun þegar liðið mætir Englandsmeisturum Manchester City í leiknum um Samfélagsskjöldinn. Knattspyrnustjóri Liverpool hefur einhverjar áhyggjur af undirbúningi liðsins.

Liverpool tapaði 1-0 á móti Red Bull Salzburg í vikunni og í framhaldinu fréttist af því að Klopp hafi ákveðið að bæta við æfingaleik eftir að tímabili hefst.

Það hafa vissulega orðið breytingar á leikmannahópi Liverpool og þá sérstaklega framarlega á vellinum því Sadio Mane fór til Bayern München og Liverpool keypti bæði Darwin Núñez og Fábio Carvalho.

Fyrsti leikur Liverpool í ensku úrvalsdeildinni er á móti Fulham 6. ágúst.

Liverpool spilar æfingarleik á móti franska liðinu Strasbourg á Anfield á sunnudaginn en það er ekki nóg fyrir þýska stjórann

Uppslátturinn hjá The Daily Star.The Daily Star

Liverpool mun því spila æfingaleik eftir Fulham leikinn og mögulega verður hann á móti Aston Villa. Sá leikur verður hins vegar að öllum líkindum spilaður fyrir luktum dyrum.

„Þetta er mjög mikilvægur leikur á móti Manchester City en staðan er sú að við þurfum enn að undirbúa liðið fyrir tímabilið og við getum ekki litið fram hjá því,“ sagði Jürgen Klopp á blaðamannafundi fyrir City leikinn.

„Við verðum því að framlengja undirbúningstímabilið okkar inn á tímabilið. Við spilum við City á laugardaginn og svo við Strasbourg á sunnudaginn,“ sagði Klopp.

„Svo mætum við við Fulham en daginn eftir munum við spila annan leik svo að við getum klárað undirbúning okkar. Það verðum við að gera af því að frá miðjum ágúst þá held ég að við séum að spila á þriggja daga fresti og þá er enginn tími fyrir æfingar,“ sagði Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×