Erlent

Hóta harkalegum viðbrögðum við heimsókn til Taívans

Samúel Karl Ólason skrifar
Nancy Pelosi yrði fyrsti forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings til að heimsækja Taívan í aldarfjórðung. Kínverjar hóta harkalegum viðbrögðum við mögulegri heimsókn.
Nancy Pelosi yrði fyrsti forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings til að heimsækja Taívan í aldarfjórðung. Kínverjar hóta harkalegum viðbrögðum við mögulegri heimsókn. AP/Mariam Zuhaib

Ráðamenn í Kína vöruðu í morgun við harkalegum viðbrögðum við mögulegri ferð Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, til Taívans í næsta mánuði. Heimsókn Pelosi, sem hefur lengi verið gagnrýnin í garð Kína, muni hafa alvarlegar afleiðingar.

Zhao Lijian, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína, sagði í morgun að heimsókn Pelosi til Taívan myndi „grafa alvarlega undan fullveldi Kína“.

Samkvæmt frétt Reuters sagði Zhao að verði af heimsókninni muni Kínverjar grípa til afgerandi og harkalegra viðbragða og afleiðingar þess verði á fulli ábyrgð Bandaríkjamanna.

Fincancial Times (áskriftarvefur) segir ráðgjafa Joes Biden, forseta Bandaríkjanna, hafa áhyggjur af heimsókninni og að hún muni auka spennu milli Bandaríkjanna og Kína.

Upprunalega ætlaði Pelosi til Taívans í apríl en þeirri ferð var frestað. Þetta yrði í fyrsta sinn í aldarfjórðung sem forseti fulltrúadeildarinnar færi til Taívans, samkvæmt frétt Politico.

Kínverjar segja Taívan tilheyra Kína en árið 1949 flúðu þjóðernissinna til eyjunnar undan kommúnistum í borgarastyrjöld landsins. Forsvarsmenn Kommúnistaflokksins hafa heitið því að ná völdum í Taívan, með valdi ef nauðsynlegt sé.

Xi Jinping, forseti Kína, hefur sagt það „óhjákvæmilegt“ að Taívan verði hluti af Kína.

Wei Fenghe, varnarmálaráðherra Kína, sagði nýverið að ekkert myndi koma í veg fyrir sameiningu ríkjanna og mögulega með innrás. Sérstaklega ef Taívanar lýsa yfir sjálfstæði.

Taívanar segjast sjálfstæðir og segjast ætla að verja frelsi þeirra og lýðræði. Sjálfstæðissinnum hefur vaxið ásmegin í Taívan á undanförnum árum en Taívanar hafa aldrei lýst yfir formlegu sjálfstæði.

Kínverjar hafa beitt Taívan sífellt meiri þrýstingi á undanförnum árum og hafa verið sakaðir um að reyna að draga máttinn úr verjendum eyjunnar með óhefðbundnum hernaði. Málefni eyríkisins á stóran þátt í versnandi samskiptum Bandaríkjanna og Kína á undanförnum árum.

Kínverjar kröfðust þess í gær að Bandaríkin hættu við umfangsmikla vopnasölu til Taívans, sem metin er á um 108 milljónir dala. Það samsvarar um 14,6 milljarða króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×